Sport

Lengdu bannið hennar í ellefu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blessing Okagbare verður orðin 44 ára gömul þegar hún má keppa aftur.
Blessing Okagbare verður orðin 44 ára gömul þegar hún má keppa aftur. EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO

Nígeríska spretthlaupakonan Blessing Okagbare verður í banni í rúmlegan áratug eftir að bann hennar var lengt í gær.

Okagbare hafði verið dæmd í tíu ára bann í febrúar fyrir að hafa ítrekuð brot á lyfjalöggjöf Alþjóða frjálsíþróttasambandsins.

Bannið er lengt af því að hún reyndi að komast hjá því að gefa sýni sem og að hafa afskipti af lyfjaprófinu sjálfu og meðferðinni á sínu máli.

Hin 33 ára gamla Okagbare féll á lyfjaprófi á Ólympíuleikunum í Tókýó í fyrra.

Bann Okagbare hefur ekki aðeins áhrif á hana sjálfa heldur missti boðsveit Nígeríu einnig sæti sitt á komandi heimsmeistaramóti í Oregon fylki.

Hún hjálpaði nígerísku sveitinni að vinna sér sæti á Ólympíuleikunum en gerði það með því að koma sér hjá því að fara í lyfjapróf í júní 2021.

Okagbare á verðlaun frá Ólympíuleikunum því hún varð í öðru sæti í langstökki á leikunum í Peking árið 2008.

Hún virtist ætla að berjast um verðlaunin í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Tókýó og byrjaði á því að vinna sinn riðil með því að hlaupa á 11,05 sekúndum.

Okagbare fékk hins vegar aldrei að keppa í undanúrslitunum eftir að kom í ljós að hún hafði fallið á lyfjaprófi sem var tekið utan keppni í aðdraganda Ólympíuleikanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×