Bíó og sjónvarp

Bósi ljós­ár bannaður í Mið-Austur­löndum út af sam­kynja kossi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Teiknimyndin Ljósár sem fjallar um ævintýri Bósa ljósár verður ekki sýnd í nokkrum Mið-Austurlöndum.
Teiknimyndin Ljósár sem fjallar um ævintýri Bósa ljósár verður ekki sýnd í nokkrum Mið-Austurlöndum. Disney/Pixar

Ljósár, nýjasta myndin frá Disney um Bósa ljósár, hefur verið bönnuð í Sádí-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Kúvæt vegna atriðis þar sem tvær konur kyssast. Teiknimyndin er „spin-off“ af hinni vinsælu seríu Leikfangasögu (e. Toy Story) og fjallar um geimævintýri Bósa Ljósár út fyrir endimörk alheimsins.

Samkvæmt The Hollywood Reporter hefur myndin verið bönnuð í nokkrum löndum í Mið-Austurlöndum vegna atriðis þar sem geimfarinn Alisha Hawthorne og kona hennar kyssast. Upphaflega hafði atriðið verið klippt út úr myndinni en var sett aftur inn í kjölfar viðbragða Pixar-starfsmanna sem ásökuðu Disney um hinsegin-ritskoðun.

Bósi Ljósár og Alisha Hawthorne sem hefur vakið viðbrögð í Mið-Austurlöndum vegna kynhneigðar sinnar.Disney/Pixar

Viðbrögð Pixar-starfsmanna voru hluti af stærri mótmælum innan Disney-fyrirtækisins þar sem stjórnendur voru gagnrýndir fyrir skort á viðbrögðum við lagafrumvarpinu „Don‘t Say Gay“ sem var lagt fram í Flórída og bannaði hinseginfræðslu í leik- og grunnskólum í fylkinu.

Ítrekaðar ritskoðanir

Þessi ritskoðun er hluti af lengri sögu milli Disney og Mið-Austurlanda. Ljósár er enn ein Disney-myndin sem er ekki sýnd í Mið-Austurlöndum af því hún inniheldur persónur sem eru hinsegin eða fjallar um hinseginmálefni. Í apríl var Marvel-myndin Doctor Strange in the Multiverse of Madness ekki sýnd af því America Chavez, ein persóna myndarinnar, er hinsegin. 

Það fylgdi í kjölfar ritskoðunar á annarri Marvel-mynd, Eternals, sem var ekki sýnd í mörgum löndum Mið-Austurlanda af því hún innihélt samkynja par. Á endanum var ritskoðuð útgáfa af myndinni hins vegar sýnd í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þá var söngleikjamyndin West Side Story ekki heldur sýnd í janúar vegna persónu sem var trans í myndinni og leikin af kynsegin leikkonu. 

Það er spurning hvort ritskoðuð útgáfa af Ljósár verði á endanum sýnd í Mið-Austurlöndum en íslenskir áhorfendur þurfa þó ekki að örvænta þar sem Ljósár verður frumsýnd í kvikmyndahúsum hérlendis á þjóðhátíðardaginn næstkomandi í Sambíóunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×