Innlent

Leggja til að rann­sóknar­nefnd verði stofnuð til að rann­saka með­ferð fatlaðra á vist­heimilum

Árni Sæberg skrifar
Fréttaflutningur af illri meðferð vistfólks á Arnarholti var meðal þess sem hvatti alþingi til að stofna nefnd um rannsókn á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda .
Fréttaflutningur af illri meðferð vistfólks á Arnarholti var meðal þess sem hvatti alþingi til að stofna nefnd um rannsókn á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda . Vísir/Vilhelm

Nefnd sem falið var að undirbúa rannsókn á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda skilaði forsætisráðherra skýrslu sinni í dag. Nefndin leggur til að sérstök rannsóknarnefnd verði stofnum um málið.

Í skýrslu nefndarinnar segir að þótt rannsókn á málinu sé ætlað að leggja sérstaka áherslu á nýliðin ár þá telji nefndin mikilvægt að skoðaður verði aðbúnaður og meðferð fatlaðs fólks aftur í tímann. Sterkar vísbendingar séu um að sá hópur hafi sætt illri meðferð á stofnunum á árum áður og mikilvægt sé að slíkt sé dregið fram í dagsljósið.

Fréttaflutningur af illri meðferð vistfólks á Arnarholti á áttunda áratugnum undirstriki mikilvægi þess að slík skoðun fari fram og úttekt á aðstæðum barna á Kópavogshæli hafi leitt í ljós að þar hafi fullorðnir einstaklingar orðið fyrir ofbeldi og sætt illri meðferð.

Katrín Jaboksdóttir forsætisráðherra sagði í dag, í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins, að ljóst sé að víða hafi pottur verið brotinn í meðferð hópsins.

Helstu niðurstöður nefndarinnar eru eftirfarandi, að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins:

  • Nefndin leggur til að rannsóknin fari fram samkvæmt fyrirmælum laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir. Slíkt fyrirkomulag gefi rannsóknarnefnd sjálfstæði, styrkar rannsóknarheimildir og sé einnig í samræmi við þann vilja Alþingis að almenn lög gildi almennt um slíkar rannsóknir.
  • Þá er lagt til að rannsóknartímabilið verði annars vegar frá 1970 - 2011 og hins vegar frá 2011 og til dagsins í dag.
  • Nauðsynlegt er að fatlað fólk með þroskahömlun og fólk með geðrænan vanda sé á meðal nefndarmanna.
  • Lögð er þung áhersla á að gæta þess að fólk með þroskahömlun og fólk með geðrænan vanda fái fullnægjandi aðstoð við að koma málum sínum á framfæri við nefndina og fylgja þeim eftir.
  • Að rannsóknin byggi á jafnræði hvað varðar afmörkun og umfang rannsóknar.
  • Að rannsóknin byggi á gagnsæi, bæði hvað varðar verklag og niðurstöður.
  • Loks eru settar fram mögulegar rannsóknarspurningar sem leitað yrði svara við.

Skýrslu nefndarinnar má lesa hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×