Sport

Eig­andi Wal­mart við það að gera Den­ver Broncos að dýrasta í­þrótta­fé­lagi sögunnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Russell Wilson, fyrrum leikstjórnandi Seattle Seahawks, mun leiða Broncos á komandi leiktíð.
Russell Wilson, fyrrum leikstjórnandi Seattle Seahawks, mun leiða Broncos á komandi leiktíð. Helen H. Richardson/Getty Images

Rob Walton, erfingi verslunarkeðjunnar Walmart, er í þann mund að kaupa NFL-lið Denver Broncos á fjóra og hálfa milljarða Bandaríkjadala. Það myndi gera Broncos að dýrasta íþróttafélagi sögunnar.

Fjármálamiðillinn Forbes greinir frá en þar segir að salan gæti verið kláruð í þessum mánuði. Enn koma þó nokkrir aðilar til greina en Walton er talinn líklegastur til að hreppa hnossið.

Samkvæmt Forbes er hinn 77 ára gamli Walton í 22. sæti yfir ríkasta fólk veraldar. Auðæfi hans eru metin á 59,1 milljarð Bandaríkjadala. Hann er sonur Sam Walton sem stofnaði Walmart á sínum tíma og var framkvæmdastjóri keðjunnar frá 1992 til 2015.

Sem stendur er Carolina Panthers dýrasta NFL-lið sögunnar en félagið var keypt á 2,275 milljarða Bandaríkjadala árð 2018. Broncos verður að því virðist selt fyrir tvöfalt hærri upphæð.

Ekki er langt síðan enska knattspyrnufélagið Chelsea var gert að dýrasta íþróttafélagi sögunnar en fjárfestahópur leiddur af Todd Boehly keypti félagið á 3,2 milljarða Bandaríkjadala. Það styttist í að það hljómi eins og dropi í hafið þegar kemur að verði íþróttafélaga.

Denver Broncos má muna sinn fífil fegurri. Liðið varð NFL-meistari í þriðja sinn í sögu félagsins árið 2015 en hefur ekki komist í úrslitakeppni deildarinnar síðan þá. Spurning hvort það breytist með nýjum eigendum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×