Við hefjum leik á Bank of Hope Match Play á Stöð 2 Golf klukkan 17:30 í dag, en það er hluti af LPGA-mótaröðinni.
Klukkan 18:50 er svo úrslitaleikur Sambandsdeildar Evrópu á dagskrá á Stöð 2 Sport 2 þegar Roma og Feyenoord eigast við. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18:30 og þegar búið verður að krýna fyrsta sigurvegara Sambandsdeildarinnar frá upphafi verður leikurinn gerður upp með sérfræðingum í setti.
Á Stöð 2 Sport eru annarskonar úrslit á dagskrá þegar Valur tekur á móti ÍBV í þriðja leik liðanna í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta. Seinni bylgjan byrjar sína upphitun klukkan 18:50, en flautað verður til leiks klukkan 19:30. Seinni bylgjan verður svo aftur á staðnum eftir leik og fer yfir allt það helsta sem gerðist.
Real Madrid og BAXI Manresa mætast í spænsku ACB-deildinni í körfubolta klukkan 18:50 á Stöð 2 Sport 3 og klukkan 21:00 er Babe Patrol með sinn vikulega þátt á Stöð 2 eSport.
Klukkan 00:30 eftir miðnætti er svo komið að leik Miami Heat og Boston Celtics í úrslitum Austudeildar NBA-deildarinnar í körfubolta. Staðan í einvíginu er 2-2, en vinna þarf fjóra leiki til að tryggja sér sæti í úrslitum NBA-deildarinnar.