Um­fjöllun og við­töl: Leiknir R. - Fram 1-2 | Gestirnir með sinn fyrsta sigur og skilja Breið­hyltinga eftir á botninum

Andri Már Eggertsson skrifar
Guðmundur tryggði fyrsta sigur Fram sumarið 2022.
Guðmundur tryggði fyrsta sigur Fram sumarið 2022. Vísir/Vilhelm

Fram heimsótti Breiðholtið og mætti Leikni Reykjavík í uppgjöri liða sem ekki höfðu unnið leik í Bestu deild karla fyrir kvöldið. Fram vann 2-1 sigur og er komið á blað. 

Í rjómablíðu gerðist lítið á fyrstu tíu mínútunum en á elleftu mínútu dró til tíðinda.

Gestirnir unnu boltann á miðjum velli þar sem Indriði Áki renndi boltanum á Frederico Bello Saraiva sem lék á Dag Austmann og tók skot fyrir utan teig í nærhornið sem Viktor Freyr Sigurðsson, markmaður Leiknis, kom engum vörnum við.

Eftir mark Fram datt ákefðin í báðum liðum niður í tæplega tíu mínútur þar sem lítið sem ekkert gerðist. Leiknir fékk tvö dauðafæri til að jafna leikinn en sjálfstraustið hjá heimamönnum í algjörum mínus og skotin eftir því.

Fram var marki yfir í hálfleik 0-1.

Fyrstu tíu mínútur í seinni hálfleik einkenndust af baráttu og hörku sem endaði með að þrír leikmenn fengu gult spjald.

Stífla Leiknismanna brast loks á 64. mínútu. Mikkel Dahl fór upp vinstri kantinn renndi boltanum á Maciej Makuszewski sem var nálægt markinu og lék á Ólaf Íshólm en fannst Emil Berger vera í betri stöðu og gaf á hann sem jafnaði leikinn. 

Eftir jöfnunarmark Leiknis gerði Jón Sveinsson, þjálfari Fram, tvöfalda breytingu þar sem hann setti Guðmund Magnússon og Hosine Bility inn á. Guðmundur var búinn að vera á grasinu í tæplega átta mínútur þegar hann kom Fram yfir með þrumufleyg eftir sendingu frá Alberti Hafsteinssyni.

Róbert Hauksson fékk gott færi þegar tæplega sex mínútur voru eftir til að jafna leikinn en Ólafur Íshólm varði vel í markinu. Fram vann á endanum sætan sigur og fór upp úr fallsæti. 

Af hverju vann Fram?

Þrátt fyrir tvö lagleg mörk þá fékk Fram færri marktækifæri heldur en Leiknir. Gestirnir gerðu hins vegar töluvert betur í að nýta þau færi sem komu.

Hverjir stóðu upp úr?

Frederico Bello Saraiva kom Fram yfir í fyrri hálfleik með laglegu marki. Fred var líflegur í byrjun seinni hálfleiks en það dró aðeins af honum þegar leið á leikinn.

Ólafur Íshólm Ólafsson, markmaður Fram, átti góðan leik milli stanganna. Ólafur varði afar vel þegar lítið var eftir af venjulegum leiktíma. 

Hvað gekk illa?

Leiknir hefði getað skorað töluvert meira en eitt mark í kvöld en heimamenn fóru ansi illa með færin á síðasta þriðjungi.

Róbert Hauksson fékk fullt af tækifærum til að skora en nýtti þau illa.

Hvað gerist næst?

Fram fer á Kópavogsvöll og mætir Breiðabliki á sunnudaginn klukkan 19:15. Á sama tíma mætast KR og Leiknir á Meistaravöllum.

Sigurður: Í sigurmarki Fram vorum við með tjaldhælana í grasinu 

Sigurður Heiðar var svekktur eftir leikVísir/Hulda Margrét

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis, var afar svekktur með tap gegn nýliðunum.

„Þetta var svakalega svekkjandi og ég trúi ekki að við höfum tapað þessum leik,“ sagði Sigurður afar niðurlútur eftir leik.

Sigurður var afar svekktur með hvernig hans menn fóru með færin og fannst honum vanta meiri gæði.

„Það vantar upp á gæðin, bæði í sendingum og á síðasta þriðjungi. Mér fannst við gera tæknifeila sem við höfum lítið gert áður.“

„Í fyrra markinu var varnarleikurinn einn á einn slakur en í seinna markinu var eins og við værum allir með tjaldhælana í grasinu inn í teig sem er óboðlegt.“

Leiknir fór afar illa með færin og taldi Sigurður það geta verið andlega hliðin sem spilaði inn í þar sem leikmenn Leiknis hafa aðeins gert eitt mark.

„Það hlýtur að vera lítið sjálfstraust í mönnum þar sem við fengum fullt af færum og ég eiginlega trúi ekki að við höfum aðeins skorað eitt mark,“ sagði Sigurður að lokum.

Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.