Fótbolti

Segir að Benzema hafi blómstrað eftir að hann létti sig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karim Benzema fagnar markinu sem kom Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Karim Benzema fagnar markinu sem kom Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. getty/Burak Akbulut

Arsene Wenger telur sig vita af hverju Karim Benzema er að toppa sem leikmaður um þessar mundir, 34 ára.

Benzema skoraði markið sem kom Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Manchester City á Santiago Bernabéu í gær. Markið kom úr vítaspyrnu á fimmtu mínútu í framlengingu. Real Madrid vann leikinn í gær, 3-1, og einvígið 6-5 samanlagt.

Benzema hefur nú skorað 43 mörk í öllum keppnum í vetur sem er það langmesta sem hann hefur skorað á einu tímabili á ferlinum. Gamla metið hans voru þrjátíu mörk.

Wenger var sérfræðingur beIN Sports um leikinn á Santiago Bernabéu í gær. Hann segir ástæðuna fyrir því að Benzema sé að blómstri svona seint á ferlinum að hann sé í betra formi en þegar hann var yngri.

„Það er áhugavert sem við sjáum í Evrópu núna að elstu framherjarnir eru skilvirkastir. Robert Lewandowski, Benzema og Zlatan Ibrahimovic eru allir að skora. Bestu framherjarnir í Evrópu eru allir yfir þrítugt. Þeir nýta sér öll mistök,“ sagði Wenger.

„Þangað til Benzema var þrítugur var hann alltaf 2-3 kílóum of þungur. Núna er hann alvöru íþróttamaður og þess vegna er hann einn af 2-3 bestu framherjum heims.“

Benzema er markahæstur í Meistaradeildinni á tímabilinu með fimmtán mörk. Tíu þeirra hafa komið í útsláttarkeppninni.

Real Madrid er þegar búið að tryggja sér Spánarmeistaratitilinn og mætir Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í París 28. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×