Innlent

Slapp naum­lega úr elds­voða í Reykja­nes­bæ

Smári Jökull Jónsson skrifar
Eins og sjá má er íbúðin illa farin eftir eldsvoðann.
Eins og sjá má er íbúðin illa farin eftir eldsvoðann. Ellert Grétarsson

Maður slapp naumlega þegar eldsvoði kom upp á heimili hans í Reykjanesbæ fyrrinótt. Hann vaknaði við glamur í svefnherbergishurðinni og hélt að jarðskjálfti hefði riðið yfir.

Ellert Grétarsson vaknaði upp við glamur í svefnherbergishurðinni sinni í fyrrinótt og hélt að jarðskjálfti hefði riðið yfir. Þegar glamrið breyttist síðan í þung högg spratt hann fram úr rúminu og fann brunalykt. Þegar fram er komið tók síðan á móti honum kolsvartur reykjarmökkur.

„Ég hrópa af öllum lífs- og sálarkröfum á strákinn minn en fékk ekkert svar. Náði að komast inn í herbergið hans en hann var ekki í rúminu síniu. Það var það skelfilegasta af öllu - að vita ekki um hann,“ skrifar Ellert í færslu á Facebook síðu sinni en Vísir fékk leyfi Ellerts til að vitna í færslu hans.

Eldsupptök munu hafa verið í fjöltengi í stofunni.Ellert Grétarsson

Ellert náði þó fljótt sambandi við son sinn sem svaraði í símann og hann var sem betur fer ekki heima. Ellert segir að hann hafi ekki séð handa sinna skil en hafi tekist að halda niðri í sér andanum og feta sig með fram vegg og að útidyrahurðinni og fram á stigagang.

„Ég hafði gripið með mér símann af náttborðinu til að geta hringt á hjálp. Stuttu síðar er slökkviliðið komið og neyðarlínan slítur samtalinu.“

Hann segir að upptök eldsins hafi verið í fjöltengi í stofunni og er þakklátur fyrir að ekki hafi farið verr.

„Ég vil þakka nágrönnum mínum hugulsemina fyrir að hlúa að mér og koma mér í föt því ég var hálfnakinn þegar ég kom út. Sérstakleg vil ég þakka frábæra starfsfólkinu sem tók á móti mér á HSS fyrir alúðlega aðhlynningu um nóttina. “



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×