Innlent

Hóparnir sem ráða miklu um næsta for­seta­val Al­þýðu­sam­bandsins

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Til vinstri: Björn Snæbjörnsson núverandi formaður SGS, Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFL. Til hægri: Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og Aðalsteinn Balursson formaður Framsýnar.
Til vinstri: Björn Snæbjörnsson núverandi formaður SGS, Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFL. Til hægri: Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og Aðalsteinn Balursson formaður Framsýnar.

For­maður VR segir tíma til kominn að nýr for­seti taki við Al­þýðu­sam­bandinu (ASÍ). Það hvort VR vilji segja sig úr sam­bandinu ræðst meðal annars af því hvernig stjórn þess teiknast upp á næsta þingi ASÍ í októ­ber.

Það logar allt í deilum innan verka­lýðs­hreyfingarinnar þar sem tvær fylkingar berjast um völd innan ASÍ. Þeim má skipta upp nokkurn veginn á þann hátt sem er rakinn hér að neðan.

Stærsta aðildar­fé­lag ASÍ er Starfs­greina­sam­bandið (SGS), sem á rúm­lega 40 prósent full­trúa á þingum ASÍ. Þar koma saman 290 þingfulltrúar aðildarfélaganna til dæmis til að greiða atkvæði um næsta forseta sambandsins. Næsta þing verður haldið í október í haust. 

SGS skiptist síðan niður í minni undir­fé­lög.

Leiðtogar undirfélaga skiptast í tvo hópa

Efling er stærst þeirra en ný­kjörinn for­maður þess Sól­veig Anna hefur verið nokkuð gagn­rýnin á for­ystu Al­þýðu­sam­bandsins og með henni nokkrir foringjar minni stéttar­fé­laga á borð við Verka­lýðs­fé­lag Akra­ness, Fram­sýn og Verka­lýðs­fé­lag Grinda­víkur.

Þau fé­lög innan ASÍ sem standa með Drífu Snæ­dal, nú­verandi for­seta ASÍ, eru til dæmis Eining-Iðja, Báran, AFL og Hlíf.

Hér er gróf skipting á helstu aðildar­fé­lögum SGS eftir því hvort for­menn þeirra hafi talað með nú­verandi for­ystu ASÍ eða gegn henni:

Hér má sjá grófa skiptingu helstu undirfélaga SGS og LÍV. Þeir verkalýðsleiðtogar sem sjást í rauðum ramma hafa heldur talað gegn forystu ASÍ en hinir í grænum ramma með henni.vísir/ragnar

Þeir sem hafa talað gegn for­ystu ASÍ:

  • Sól­veig Anna Jóns­dóttir - Efling
  • Vil­hjálmur Birgis­son - Verka­lýðs­fé­lag Akra­ness
  • Aðal­steinn Baldurs­son - Fram­sýn
  • Hörður Guð­brands­son - Verka­lýðs­fé­lag Grinda­víkur

Þeir sem hafa staðið með for­ystu ASÍ:

  • Björn Snæ­björns­son, nú­verandi for­maður SGS - Eining-Iðja
  • Hall­dóra Sig­ríður Sveins­dóttir - Báran
  • Hjör­dís Þóra Sigurþórsdóttir - AFL
  • Kol­beinn Gunnars­son - Hlíf

Önnur fé­lög SGS eru öllu minni og erfitt er að stað­setja leið­toga þeirra í deilunni. Svo verður að hafa þann fyrirvara á að fulltrúar þessara félaga á þingi ASÍ verða ekki að fylgja sannfæringu formanna sinna heldur kjósa þeir næsta forseta sjálfstætt í nafnlausri kosningu.

Það er síðan Lands­sam­band ís­lenskra verslunar­manna sem er næst­stærsta undir­fé­lag ASÍ og á um 34 prósent full­trúa á þingi ASÍ, eða samtals 99 fulltúa á móti 120 fulltrúum SGS. Saman eru SGS og LÍV því með 219 af 290 þingfulltrúum.

Innan þess er VR lang­stærst en for­maður þess hefur verið mjög gagn­rýninn á Drífu upp á síð­kastið.

Vilja nýjan forseta

„Þessar deilur eru uppi á borðum og fyrir allra augum en hafa verið til staðar nánast frá því að Drífa tók við,“ segir Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, í sam­tali við frétta­stofu í dag.

Ragnar Þór sækist ekki sjálfur eftir því að verða næsti forseti ASÍ. vísir/vilhelm

„Þetta hefur gert það að verkum að Al­þýðu­sam­bandið er ekki það afl sem við viljum sjá Al­þýðu­sam­bandið verða.“

Þannig þið viljið nýjan for­seta yfir ASÍ?

„Já.“

Sjálf vildi Drífa ekki veita við­tal í dag og sagðist hafa mikil­vægari verk­efnum að sinna en að munn­höggvast við aðra verka­lýðs­leið­toga í fjöl­miðlum. Hún sagðist ekki vera búin að ákveða hvort hún gefði kost á endurkjöri á næsta þingi ASÍ

Það er þó ljóst að það verður lík­lega á brattann að sækja fyrir hana sækist hún eftir endur­kjöri.

Næstu mánuðir ráði úr­slitum

Breytinga má vænta á stærstu aðildar­fé­lögum ASÍ á næstunni en í næstu viku verður nýr for­maður Starfs­greina­sam­bandsins kjörinn.

Sól­veig Anna tekur svo við for­mennsku Eflingar þann 8. apríl næst­komandi eftir að hún náði kjöri á ný um miðjan síðasta mánuð.

„Þannig að ég myndi segja að næstu vikur og mánuðir ráði svo­lítið úr­slitum um það hvernig strúktúr verður á Al­þýðu­sam­bandinu eftir næsta Al­þýðu­sam­bands­þing sem verður í haust,“ segir Ragnar Þór.

Sjálfur segist hann ekki með til­lögu að næsta for­seta ASÍ.

Vilt þú verða næsti for­seti ASÍ?

„Nei takk, ó­mögu­lega. Ég hef engan á­huga á þessu hlut­verki,“ segir Ragnar Þór.


Tengdar fréttir

Segir Drífu hafa mis­tekist og spyr hvort ASÍ sé barn síns tíma

Formaður VR segir forseta Alþýðusambandsins hafa mistekist að sætta sjónarmið innan verkalýðshreyfingarinnar þar sem hann segir eitraða menningu hafa þrifist í langan tíma. Hann segir mögulegt að ASÍ sé barn síns tíma og að verkalýðshreyfingin þurfi að endurhugsa aðkomu sína að sambandinu.

Á­tökin í verka­lýðs­hreyfingunni

Þegar ég tók við embætti forseta ASÍ haustið 2018 einsetti ég mér að forðast fram í lengstu lög að munnhöggvast við félaga mína opinberlega. Ég taldi – og tel enn – að leiða ætti ágreining til lykta innan lýðræðislegra stofnanna hreyfingarinnar.

For­seti ASÍ vildi frysta launa­hækkanir

Það er greinilegt að örvænting Drífu Snædal forseta ASÍ er algjör en í þessari grein sem ber heitið „Átökin í verkalýðshreyfingunni“ er sannleikurinn og staðreyndir algjört aukaatriði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×