Sport

„Þurfum bara að geta klárað leiki til að vera betri en Afturelding“

Andri Már Eggertsson skrifar
Arnar Daði og hans menn gerðu jafntefli gegn Aftureldingu
Arnar Daði og hans menn gerðu jafntefli gegn Aftureldingu Vísir/Elín Björg

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, var svekktur með hvernig Grótta byrjaði leikinn en þokkalega brattur með stigið gegn Aftureldingu.

„Þetta var hörkuleikur. Mér fannst við ekki byrja vel, við reyndum að þreyta Aftureldingu þar sem við vissum að þeir væru fáliðaðir og mér fannst það ganga ágætlega. Það er jákvætt að við vorum ekki klárir til að byrja með en vorum með unninn leik í höndunum þegar lítið var eftir,“ sagði Arnar Daði eftir leik og hélt áfram.

„Mig langar að segja að við séum með betra lið en Afturelding en ég ætla samt ekki að vera sá þjálfari sem vinnur ekki leik en segist vera betri. Eina sem vantar hjá okkur er að klára jafna leiki.“

Arnar var ekki ánægður með hvernig Grótta spilaði í byrjun leiks og tókst heimamönnum aðeins að skora eitt mark á átta mínútum.

„Við vorum linir, það vantaði sama kraft og í síðasta leik gegn Selfossi og við fórum illa með nokkur dauðafæri. Þetta var samt bara tuttugu mínútna kafli af sextíu mínútna leik en ég er kröfuharður og vill góðan leik frá upphafi til enda.“

Í seinni hálfleik komst Grótta þremur mörkum yfir og var Arnar ánægður með vörnina á þeim tímapunkti.

„Á þeim kafla tókst okkur að þétta vörnina, Einar varði vel og við fengum kraft í sóknarleikinn en síðan kom bara stífla á lokamínútunum.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.