Sport

Úkraínsk tennisstjarna neitar að mæta Rússa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elina Svitolina hefur unnið sextán mót á WTF mótaröðinni í tennis.
Elina Svitolina hefur unnið sextán mót á WTF mótaröðinni í tennis. getty/Robert Prange

Úkraínska tenniskonan Elina Svitolina neitaði að mæta Rússanum Anastasiu Potapovu í 32 manna úrslitum á móti í Monterry í Mexíkó í dag.

Svitolina dró sig úr keppni á mótinu og ætlar ekki að mæta spilurum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi á WTA mótaröðinni vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Svitolina hvetur æðstu presta í tennisheiminum til að fara að fordæmi Alþjóða ólympíunefndarinnar að meina rússnesku og hvít-rússnesku íþróttafólki að keppa undir merkjum sinna þjóða.

„Staðan kallar á skýra afstöðu frá ATP, WTA og ITF. Við, úkraínskt tennisfólk, höfum farið þess á leit við samböndin að þau fylgi IOC og samþykki íþróttafólk frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi aðeins sem hlutlausa keppendur sem geta ekki tengt sig sinni þjóð,“ skrifaði Svitolina á Twitter í gær.

„Ég vil tilkynna að ég mun ekki spila í Monterrey á morgun né mæta neinum keppendum frá Rússalndi og Hvíta-Rússlandi þangað til samböndin okkar grípa til viðeigandi ráðstafana. Ég á ekkert sökótt við rússneskt íþróttafólk. Það er ekki ábyrgt fyrir innrásinni og ég þakka öllum rússnesku íþróttafólki sem sýndi hugrekki og tók afstöðu gegn stríðinu. Stuðningur þess er nauðsynlegur.“

Svitolina er fimmtánda á heimslistanum í tennis. Hún komst í undanúrslit Wimbledon og Opna bandaríska meistaramótsins 2019. Þá vann hún brons á Ólympíuleikunum í Tókýó síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×