Innlent

Aðild að Geim­vísinda­stofnun Evrópu dýrt spaug

Eiður Þór Árnason skrifar
Höfuðstöðvar Geimvísindastofnun Evrópu eru staðsettar í París.
Höfuðstöðvar Geimvísindastofnun Evrópu eru staðsettar í París. Samsett

Stjórnvöld telja óraunhæft að stefna að aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu (ESA) á þessu stigi í ljósi þess að hún sé mjög kostnaðarsöm, bæði hvað varðar fjármuni og mannafla innan stjórnsýslunnar og vísindasamfélagsins. Auk þessi liggi ekki fyrir nægileg greining á skýrum hagsmunum og ávinningi Íslands af fullri aðild.

Þetta kemur fram í svari háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Fulltrúar stjórnvalda hafa átt í samskiptum við ESA varðandi gerð mögulegs samstarfssamnings við stofnunina. Að mati ráðuneytisins þarf að fara fram frekari greining á ávinningi og tilkostnaði af samstarfi við ESA áður tekin verður ákvörðun um aðild Íslands að stofnuninni.

Aðspurð um hver afstaða hennar er til mögulegrar aðildar svarar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, því að henni þyki ótímabært að lýsa stuðningi við þá leið þar sem faglegur ávinningur af fullri aðild Íslands að ESA hafi ekki verið metinn.

„Vinna þarf frekari greiningu á ávinningi af samstarfi við ESA og huga að tilnefningu tengiliðar íslenskra stjórnvalda við stofnunina vegna hugsanlegs samstarfssamnings. Mikilvægt er að öll hlutaðeigandi ráðuneyti komi sameiginlega að undirbúningi slíks samstarfs auk þátttöku Rannís sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna við þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins. Þar sem samstarfssamningur yrði mögulega fyrsta skref að fullri aðild að stofnuninni er mikilvægt að utanríkisráðuneyti sé upplýst um þau skref sem verða tekin.“

Ef gerður verði samstarfssamningur við ESA sem reynist hagfelldur fyrir Ísland fáist dýrmæt reynsla til að leggja mat á fýsileika fullrar aðildar síðar. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.