Rússneska skautakonan Kamila Valieva var ein mest umtalaði íþróttamaður á Vetrarólympíuleikunum í Peking allt frá byrjun þegar hún mætti inn á leikana sem undrabarn, féll síðan á lyfjaprófi, fékk samt að keppa og endaði síðan á að brotna niður í lokaæfingu sinni og missa af verðlaunapallinum.
Það er eitt að vera fimmtán ára gömul að keppa á stærsta sviðinu en að gera það með nánast allan heiminn á herðunum.
Síðast sáum við Kamilu grátandi á öxl þjálfara sinna og margir óttuðust um þau sálfræðilegu áhrif sem pressan og andlega álagið gat haft áhrif á svo unga íþróttakonu.
Kamila gladdi samt fylgjendur sína með því að senda frá sér kveðju og þakka fyrir stuðninginn og kveðjur sem hún fékk.
Það sem meiri er að við sáum líka Kamilu skælbrosandi á einni myndanna sem er góð tilbreyting eftir mjög erfiða daga í Peking.
Kamila sendi líka frá sér kveðju á bæði rússnesku og ensku. Í þeirri á rússnesku þá þakkar hún þjálfurum sínum mikið fyrir stuðninginn.
„Fyrstu Ólympíuleikarnir mínir eru að baki og ég vil þakka þeim sem hjálpuðu mér að komast á mikilvægasta mótið á mínum ferli. Þjálfararnir mínir: Eteri Georgievna, Sergey Viktorovich og Daniil Markovich,“ skrifaði Kamila.
„Þið eruð algjörir meistarar á ykkar sviði, ekki aðeins hvað varðar æfingarnar heldur einnig að ná tökum á sjálfri þér. Það hjálpar manni ekki aðeins í íþróttum heldur einnig í lífinu sjálfu. Með ykkur við hlið mér þá finnst mér ég vera örugg og tilbúin í hvaða próf sem er. Takk fyrir að hjálpa mér að vera sterk,“ skrifaði Kamila en það má sjá færslur hennar hér fyrir ofan og neðan.