Sport

Hæsta úthlutun Afrekssjóðs frá upphafi og HSÍ fær hæsta styrkinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í handbolta lenti í 6. sæti á nýafstöðnu Evrópumóti.
Íslenska karlalandsliðið í handbolta lenti í 6. sæti á nýafstöðnu Evrópumóti. getty/Uros Hocevar

Afrekssjóður ÍSÍ úthlutaði sérsamböndum afreksstyrki upp á samtals 543 milljónir króna. Um er að ræða hæstu úthlutun Afrekssjóðs frá upphafi en hún hækkar um 28 milljónir milli ára.

Afrekssjóði bárust umsóknir frá 32 sérsamböndum og fengu þrjátíu sambönd styrk vegna afreksíþróttastarfs og landsliðsverkefna. 

Handknattleikssamband Íslands fékk langhæsta styrkinn, eða 86,6 milljónir króna. Fimleikasambandið fékk næsthæsta styrkinn úr afrekssjóði, 62,7 milljónir króna. Körfuknattleikssambandið kom þar á eftir með 50,5 milljónir króna.

HSÍ fær fimmtán milljónum meira en á síðasta ári, FSÍ tæplega sjö milljónum meira og KKÍ 5,1 milljónum meira.

Úthlutunin fór fram í tveimur hlutum. Á fundi framkvæmdastjórnar ÍSÍ í lok síðasta árs var 220 milljónum króna úthlutað og 323 milljónum króna á fundi framkvæmdastjórnar í síðasta mánuði.

Í fréttatilkynningu frá ÍSÍ kemur fram að þó úthlutun sjóðsins hækki milli ára sýni gögn sérsambandanna að kostnaður við afreksíþróttastarf haldi áfram að aukast. Þá hefur kostnaður við ferðalög og sóttvarnir aukist verulega vegna kórónuveirufaraldursins.

Sérsambönd ÍSÍ eru flokkuð í þrjá afreksflokka; A (Afrekssérsambönd), B (Alþjóðleg sérsambönd) og C (Þróunarsérsambönd). Átta sérsambönd eru í flokki A, tólf í flokki B og tíu í flokki C. Ein breyting var gerð á flokkuninni en Bogfimisamband Íslands telst nú B (Alþjóðlegt sérsamband) en ekki C (Þróunarsérsamband).

Úthlutun Afrekssjóðs ÍSÍ til sérsambanda 2022

A-flokkur (Afrekssérsambönd)

  • HSÍ – Handknattleikssamband Íslands 86.600.000 
  • FSÍ – Fimleikasamband Íslands 62.700.000 
  • KKÍ – Körfuknattleikssamband Íslands 50.500.000 
  • SKÍ – Skíðasamband Íslands 42.550.000 
  • FRÍ – Frjálsíþróttasamband Íslands 36.700.000 
  • GSÍ – Golfsamband Íslands 36.350.000 
  • SSÍ – Sundsamband Íslands 35.600.000 
  • ÍF – Íþróttasamband fatlaðra 32.050.000

B-flokkur (Alþjóðleg sérsambönd)

  • KRA – Kraftlyftingasamband Íslands 19.050.000 
  • ÍHÍ – Íshokkísamband Íslands 13.550.000 
  • BLÍ – Blaksamband Íslands 13.000.000 
  • KLÍ – Keilusamband Íslands 12.075.000 
  • DSÍ – Dansíþróttasamband Íslands 11.350.000 
  • SKY – Skylmingasamband Íslands 10.600.000 
  • BSÍ – Badmintonsamband Íslands 10.450.000 
  • JSÍ – Judosamband Íslands 10.200.000 
  • BFSÍ – Bogfimisamband Íslands 10.000.000 
  • KAÍ – Karatesamband Íslands 9.650.000 
  • LH – Landssamband hestamannafélaga 8.500.000 
  • STÍ – Skotíþróttasamband Íslands 8.250.000

C-flokkur (Þróunarsérsambönd)

  • HRÍ – Hjólreiðasamband Íslands 3.300.000 
  • ÞRÍ – Þríþrautarsamband Íslands 3.300.000 
  • ÍSS – Skautasamband Íslands 3.300.000 
  • TSÍ – Tennissamband Íslands 2.300.000 
  • LSÍ – Lyftingasamband Íslands 2.300.000 
  • BTÍ – Borðtennissamband Íslands 2.250.000 
  • KÍ – Klifursamband Íslands 1.875.000 
  • MSÍ – Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasamband Íslands 1.800.000 
  • HNÍ – Hnefaleikasamband Íslands 1.750.000 
  • SÍL – Siglingasamband Íslands 1.750.000



Fleiri fréttir

Sjá meira


×