Innlent

„Ég hef ekki klippt mig í tvö ár“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Hallgrímur Ólafsson og Birgitta Birgisdóttir leikarar eru spennt að fá að taka á móti fleiri leikhúsgestum á næstu vikum.
Hallgrímur Ólafsson og Birgitta Birgisdóttir leikarar eru spennt að fá að taka á móti fleiri leikhúsgestum á næstu vikum. Stöð 2

Leikarar fagna afléttingum á sóttvarnatakmörkunum en nú mega allt að fimm hundruð leikhúsgestir mæta á leiksýningar. 

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti næstu skref í faraldrinum fyrr í dag. Umtalsverðar breytingar munu taka gildi á næstu vikum ef allt gengur eftir. Nýju reglurnar heimila leikhúsum meðal annars að taka á móti 500 leikhúsgestum í einu.

Engin þörf verður á hraðprófum en grímuskylda er þó enn í hávegum höfð.

„Það er bara fínt að koma þessu af stað aftur, þetta er góð tímasetning. EM að klárast í dag og leikhúsið að byrja á morgun,“ segir Hallgrímur Ólafsson leikari og er spenntur að fá að halda stærri sýningar á næstu vikum.

Birgitta Birgisdóttir leikkona tekur í sama streng og vonar að næsta skref afléttinga verði sjálf grímuskyldan.

„Ég get ekki beðið sko. Þetta er sérstaklega ánægjulegt fyrir mig persónulega því að við erum að fara að sýna Ástu á Stóra sviðinu næstu helgi ef allt gengur upp. Það er bara gríðarleg tilhlökkun að mæta fólki hérna í Stóra salnum,“ segir Birgitta.

Hallgrímur segist ekki hafa klippt sig síðan æfingar á Kardemommubænum hófust en uppsetningin sem hann á við var frumsýnd árið 2020.

„Ég var beðinn um að safna smá hári fyrir Kardemommubæinn. Ég hef ekki klippt mig í tvö ár þannig að nú viljum við bara fara að klára þetta,“ segir Hallgrímur og bætir við að Kardemommubærinn fari loks aftur af stað í næsta mánuði.


Tengdar fréttir

Ásta færð á Stóra sviðið

Uppselt hefur verið á fjörutíu sýningar á verkið Ásta í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Því hefur verið ákveðið að færa sýninguna yfir á Stóra sviðið. 

Valdi að leika afturendann á asna

Kardemommubærinn er nú kominn á svið Þjóðleikhússins í sjötta skiptið en Íslendingar sáu hann fyrst árið 1960.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×