Tíska og hönnun

Hönnuðurinn Thierry Mu­gler er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Thierry Mugler hannaði á síðustu árum fatnað meðal annars fyrir þær Beyoncé, Lady Gaga og Kim Kardashian.
Thierry Mugler hannaði á síðustu árum fatnað meðal annars fyrir þær Beyoncé, Lady Gaga og Kim Kardashian. Getty

Franski hátískuhönnuðurinn Thierry Mugler er látinn, 73 ára að aldri. Umboðsmaður Mugler segir hann hafa látist í gær af náttúrulegum orsökum.

Mugler var mjög áhrifmikill á níunda áratugnum og átti hönnun hans, sem einkenndist af herðabreiðum fatnaði og skörpum línum með vísunum aftur til fimmta og sjötta áratugarins, eftir að eiga þátt í að skilgreina fatastíl þess áratugar.

Í frétt BBC segir að í seinni tíð hafi Mugler verið einna helst þekktur fyrir ilmvötn sín en hann hannaði þó einnig fjölda kjóla á stórstjörnur á borð við Beyoncé, Lady Gaga og Kim Kardashian.

Hann rataði einnig í fréttir á síðustu árum vegna slysa sem varð til þess að hann gekk undir nokkrar lýtaaðgerðir á andliti.

Síðar í þessari viku stóð til að Mugler myndi kynna nýtt samstarf, segir umboðsmaðurinn Jean-Baptiste Rougeot.

Mugler fæddist í Strasbourg í desember 1948 og fluttist tvítugur til Parísar þar sem hann stofnaði eigið merki, Cafe de Paris árið 1973. Ári síðar stofnaði hann svo merkið Thierry Mugler.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×