Innlent

Sexhyrndur athyglissjúkur hrútur

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sexi á bænum Óskabakka, sem er sexhyrndur fallegur hrútur með þrjú litamynstur.
Sexi á bænum Óskabakka, sem er sexhyrndur fallegur hrútur með þrjú litamynstur. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hrúturinn Sexi er engin venjulegur hrútur því hann er sexhyrndur og þrílitur. Sexi elskar athygli enda stendur hann alltaf upp í stíunni sinni með framfæturna upp í garðanum þegar gestir koma í fjárhúsið á Ósabakka í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Í fjárhúsinu hjá Jökli Helgasyni er fallegt fé með allskonar liti og horn. Jökull er mikill ræktunarmaður og er algjörlega ófeimin að prófa sig þar áfram. Hann hefur gaman af ferhyrndu fé, eins og þessum hrúti en það er þó hrúturinn Sexi sem vekur hvað mesta athygli í fjárhúsinu því hann er sexhyrndur.

„Og hann er vel stigaður þessi hrútur, 84 stig og það er bara spennandi að sjá hvort að það sé hægt að fá áfram sex horn. Það sjást reyndar ekki nema fimm horn núna því það brotnaði eitt á fengitímanum, sennilega hefur hann fest sig í slæðigrind, þannig að eitt hornið er farið af, en það truflar ekki genin,“ segir Jökull.

Sexi fékk ellefu kindur á fengitímanum og því er Jökull mjög spenntur að sjá í vor í sauðburðinum hvort sex horn komi einhvers staðar á einhverju lambi.

En hefur hann heyrt áður um sexhyrndan hrút?

„Nei, ég hef ekki heyrt áður um það en það væri nú forvitnilegt að vita hvort þetta sé til annars staðar á landinu.“

Jökull er mikill ræktunarmaður og er algjörlega óhræddur við að prófa sig áfram í ræktuninni.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sexi er nokkuð athyglissjúkur því hann stillir sér alltaf upp.

„Já, hann gerir þetta alltaf þegar einhver kemur í húsið, þá er hann komin upp eins og forystukindur,“ segir Jökull hlægjandi.

En það eru ekki bara hornin á Sexa, sem gera hann svona merkilega, nei, nei, því hann er líka þrílitur.

„Já, grunnliturinn er grár og hann er golsóttur botnóttur, sem sagt grágolsubotnóttur og það er svolítið sérstakt að það skuli vera þrjú litamynstur í einni kind sem á víst ekki að vera hægt en það er greinilega hægt,“ segir Jökull.

Jökull Helgason er með myndarlegt fjárbú á Óskabakka.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.