Erlent

Bandaríkin og Japan vara við flóðbylgju

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hér má sjá öskustrókinn frá eldfjallinu í morgun.
Hér má sjá öskustrókinn frá eldfjallinu í morgun. AP/Japan Meteorology Agency

Yfirvöld í Bandaríkjunum og Japan hafa varað fólk við því að vera í nálægð við strendur Kyrrahafsins vegna hættu á að flóðbylgja skelli á þær. Flóðbylgja skall á höfuðborg eyríkisins Tonga í morgun vegna neðarsjávareldgoss sem hófst fyrr í morgun.

Viðvaranir í Japan gera ráð fyrir að allt að þriggja metra háar flóðbygljur geti skollið á strendur landsins en flóðbylgjurnar eru þegar farnar að berast að ströndum Japan, þær hæstu um 1,2 metrar. 

Bandaríkin hafa sömuleiðis varað íbúa á vesturströndinni við því að vera í nálægð við sjóinn og gera ráð fyrir flóðum og miklum öldugangi. 

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins heyrðust drunurnar frá eldfjallinu Hunga Tonga-Hunga Ha'apai um allt Suður-Kyrrahafið og bárust meira að segja til Bandaríkjanna. 

Shane Cronin, eldfjallafræðingur og prófessor við háskólann í Auckland, segir eldgosið það kraftmesta og stærsta á Tonga-brotabeltinu í meira en þrjátíu ár. 

„Það merkilegasta er hvað það breiddi hratt úr sér. Þetta gos er stærra og askan breiðist lengra út og er mun meiri en áður. Ég geri ráð fyrir því að öskufallið í Tonga muni verða margra sentímetra djúpt.“

Eins og áður segir skall flóðbylgja á höfuðborg Tonga í morgun og eru margir hlutar eyjunnar nú þaktir ösku. Höfuðborgin er aðeins um 65 km suður af eldfjallinu og hefur rafmagn, síma- og netsamband víða rofnað. Hvort einhver hafi slasast eða farist í dag er ekki ljóst og þá eru skemmdir á innviðum enn óljósir. 

Samkvæmt veðurstofu Tonga nær öskustrókurinn frá eldfjallinu um tuttugu kílómetra upp í loftið.

Viðvaranir hafa verið gefnar út víða um Kyrrahafið vegna eldgossins. Yfirvöld á Fiji hafa gefið út leiðbeiningar vegna gossins og mögulegra flóðbylgja og opnað fjöldahjálparstöðvar fyrir fólk sem býr við strendurnar. Yfirvöld í Vanuatu hafa gert slíkt hið sama. 

Þá segjast yfirvöld í Ástralíu fylgjast grannt með stöðunni og hafa gefið út viðvaranir í Tasmaníu og sumum svæðum við austurströndina. Yfirvöld í Nýja Sjálandi hafa sömuleiðis varað við miklum öldugangi við austurströnd landsins. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×