Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis. Hann segist enn vera sannfærður um að á næstu vikum eða mánuðum muni takast að skapa hér það mikið samfélagslegt ónæmi að smitum fari að fækka verulega og fólk geti snúið til eðlilegra lífs.
Þó sé erfitt að segja til um á þessari stundu hvort það muni marka endalok Covid-faraldursins. Þórólfur sagði enn óljóst hvenær toppnum yrði náð og áfram sé hætta á frekari innlögnum á sjúkrahús sem hafi færst í aukanna.
Sóttvarnalæknir telur að breyting á sóttkví þríbólusettra geti markað upphafið að ýmsum tilslökunum. Með þessu megi meðal annars koma til móts við atvinnulífið sem hafi fundið mikið fyrir áhrifum faraldursins. Þórólfur sagði að þetta ætti eftir að koma betur í ljós en takmörkunum yrði frekar aflétt í hægum skrefum en öllum á einum tímapunkti.
Allir á gjörgæslu með delta
Þórólfur sagði að útbreiðsla faraldursins hér á landi sé áfram í töluverðum vexti líkt og víða erlendis. Að minnsta kosti 90% þeirra sem greinast nú eru með ómíkron afbrigðið en áfram greinast á milli 100 til 150 einstaklingar með delta-afbrigðið á degi hverjum.
Frá 15. desember hefur ómíkron greinst hjá um 40% þeirra sem hafa lagst inn á spítala. Allir sem eru nú á gjörgæslu eru með delta afbrigði veirunnar og nær allir eru óbólusettir. Karlmaðurinn á sjötugsaldri sem lést af völdum Covid-19 í gær var ekki bólusettur.

Alvarlegar afleiðingar af völdum ómíkron afbrigðisins virðast vera um 30 til 50 prósent ólíklegri en af völdum delta, samkvæmt erlendum rannsóknum. Að sögn Þórólfs virðist þetta ríma við þróunina hér á landi.
Ómíkron virðist hér vera algengast hjá yngri fullorðnum einstaklingum en delta hjá börnum. Þórólfur hvetur fólk áfram til að mæta í bólusetningu og þiggja örvunarskammt þar sem ljóst sé að bólusetning verndi betur gegn smiti af völdum delta en ómíkron.
Fréttin hefur verið uppfærð.