Sport

Stefna á að rjúfa sænsku einokunina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kolbrún Þöll Þorradóttir og stöllur hennar hlaupa hönd í hönd inn á sviðið í undanúrslitunum.
Kolbrún Þöll Þorradóttir og stöllur hennar hlaupa hönd í hönd inn á sviðið í undanúrslitunum. stefán pálsson

Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum stefnir á að rjúfa einokun Svía á gullverðlaunum á Evrópumótinu.

Úrslitin í fullorðinsflokki á EM í hópfimleikum í Guiamaeres í Portúgal fara fram í dag. Svíar hafa orðið Evrópumeistarar þrisvar sinnum röð eftir að Íslendingar unnu 2010 og 2012. Eftir þrenn silfurverðlaun í röð þyrstir íslensku stelpurnar í gullverðlaun.

„Að sjálfsögðu er það markmiðið. Við ætlum að koma inn og gera okkar allra besta. Ef við klárum öll okkar stökk og gerum allt okkar getum við gengið sáttar af gólfinu,“ sagði Kolbrún í samtali við Vísi í gær.

Svíar urðu efstir í undanúrslitunum en aðeins sjónarmun á undan Íslendingum. Kolbrún segir sænska liðið álíka sterkt og undanfarin ár.

„Þær eru svipaðar og þessi lið eru mjög svipuð. Þetta er bara spurning hver framkvæmir betur og á betri dag,“ sagði Kolbrún.

Hún stekkur jafnan síðust enda framkvæmir hún afar erfið stökk sem gefa þá hærri einkunn ef þau heppnast.

„Það er raðað upp eftir erfiðleika. Við sem erum aftastar gerum erfiðustu stökkin. Þetta er smá ábyrgð og pressa að vera aftastur en það er bara gaman,“ sagði Kolbrún.

Keppni í kvennaflokki á EM í hópfimleikum hefst klukkan 14:50 í dag. Hægt verður að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu á Vísi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.