Umfjöllun: Kýpur - Ísland 0-4 | Á réttri braut inn í EM-árið

Sindri Sverrisson og Sverrir Mar Smárason skrifa
Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir voru báðar á skotskónum í dag og enduðu markahæstar landsliðsins í ár með fjögur mörk hvor.
Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir voru báðar á skotskónum í dag og enduðu markahæstar landsliðsins í ár með fjögur mörk hvor. Getty/Angelo Blankespoor

Fram undan er stórt, vonandi risastórt, ár hjá kvennalandsliði Íslands í fótbolta. Liðið leikur á EM í Englandi næsta sumar og um haustið er möguleiki á að liðið komist í fyrsta sinn í lokakeppni HM sem fram fer suður í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Öruggur 4-0-sigur gegn Kýpur ytra í kvöld, í síðasta leik Íslands á þessu ári, gerir að verkum að liðið er tveimur stigum á eftir toppliði Hollands og með leik til góða, í undankeppni HM.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir komu Íslandi í 3-0 í fyrri hálfleik, og Guðrún Arnardóttir bætti við fjórða markinu með sínu fyrsta landsliðsmarki.

Möguleiki á efsta sætinu

Enginn kvartar eftir öruggan sigur þó að frammistaðan hefði hæglega getað verið betri. Það verða ekki leikirnir gegn Kýpur sem ráða úrslitum um það hvaða lið úr C-riðli kemst á HM. Holland, Ísland og Tékkland eru öll í allt öðrum klassa en hin tvö liðin í riðlinum, Kýpur og Hvíta-Rússland.

Það gæti reynst vatn á myllu Íslands að nú hafa Tékkland og Holland gert jafntefli í báðum innbyrðis viðureignum sínum, og mögulega dygði það Íslandi þá að ná jafntefli við Holland á útivelli þegar undankeppninni lýkur, í september á næsta ári, til að enda í efsta sæti og komast beint á HM. Liðið í 2. sæti fer í umspil.

Kýpur gerði örlítið meiri tilraun til að halda boltanum á heimavelli en í 5-0 sigri Íslands í Laugardalnum í október. Yfirburðir Íslands voru engu að síður algjörir og þó að heppnisstimpill hafi verið á fyrsta marki Íslands þá var spurningin aðeins hve fast Ísland myndi stíga á bensíngjöfina og þar með hve stór sigurinn yrði.

Betri leikari hefði getað náð Glódísi af velli

Karólín Lea Vilhjálmsdóttir skoraði fyrsta markið beint úr aukaspyrnu, eftir sjö mínútna leik, með fyrirgjöf sem endaði efst í fjærhorninu. Berglind Björg Þorvaldsdóttir bætti við öðru úr vítaspyrnu sem hún krækti sjálf í skömmu síðar.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir átti fínan leik í kvöld.Getty/Angelo Blankespoor

Eftir hálftíma leik gerði Glódís Perla Viggósdóttir sjaldséð mistök sem hefðu getað reynst dýrkeypt, ekki bara í kvöld heldur fram í tímann. Glódís missti boltann við eigin vítateig og náði að bjarga sér fyrir horn þegar hún greip lauslega í Eirini Michail og tók af henni boltann.

Ef Michail væri betri leikari hefði Glódís mögulega getað endað með rautt spjald og í banni í leiknum við Hvíta-Rússland ytra í apríl. Það hefði vissulega verið afar strangur dómur en Glódís dansaði þarna algjörlega óþarfan línudans.

Sveindís og Karólína markahæstar

Það hefði hins vegar alls ekki verið í takti við leikinn ef Kýpur hefði náð að troða inn einu marki og Ísland komst í 3-0 þegar Sveindís Jane Jónsdóttir þrumaði boltanum í netið, hægra megin úr teignum, eftir sendingu Karólínu.

Sveindís er nú að flytjast til Wolfsburg í Þýskalandi, eftir frábært ár í Svíþjóð, til að spila gegn og æfa með mörgum af bestu leikmönnum heims. Það flækist því ekki fyrir henni að hrista af sér varnarmenn eins slakasta landsliðs Evrópu.

Sveindís og Karólína luku þar með árinu markahæstar í landsliðinu með fjögur mörk hvor.

Byrjunarliðið vel mótað

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari er búinn að nýta fyrsta ár sitt í starfi vel í að finna sitt sterkasta byrjunarlið.

Ef draumur Söru Bjarkar Gunnarsdóttur um að spila á EM, með nýfæddan son sinn í stúkunni, rætist þá mun hún auðvitað aðeins styrkja liðið. Eins ætti Elín Metta Jensen að vera búin að ná sér vel af meiðslum á nýju ári sem myndi auka enn samkeppnina í fremstu víglínu. En grunnurinn og rúmlega það að liði sem spennandi verður að fylgjast með á EM í Englandi, og í baráttunni um sæti á HM í fyrsta sinn, er tilbúinn.

Dagný Brynjarsdóttir hefur fengið hlutverk aftar á miðjunni hjá Þorsteini Halldórssyni, en hún er vön á sínum ferli.Getty/Angelo Blankespoor

Liðið í gær var nákvæmlega það sama og í 4-0 sigrinum góða gegn Tékklandi í síðasta mánuði, svo Guðný Árnadóttir virðist vera að eigna sér stöðu hægri bakvarðar, Dagný Brynjarsdóttir uppfylla óskir Þorsteins sem aftasti miðjumaður og Guðrún Arnardóttir brotið sér leið inn í miðja vörnina eftir að hafa orðið Svíþjóðarmeistari með Rosengård.

Fyrsta mark Guðrúnar og frumraun Ídu

Guðrún skoraði sitt fyrsta landsliðsmark þegar hún kom Íslandi í 4-0 á 62. mínútu, með skalla eftir að aukaspyrna Karólínu var varin í þverslá.

Með öruggt forskot í hálfleik hafði Þorsteinn gert tvær breytingar strax í upphafi seinni hálfleiks, og gaf Sveindísi og Gunnhildi Yrsu hvíld. Amanda Andradóttir lék sinn þriðja landsleik og Alexandra Jóhannsdóttir kom inn á miðjuna.

Hraðinn í leiknum minnkaði í seinni hálfleiknum en Ísland var áfram með algjöra yfirburði. Ef liðið hefði þurft á fleiri mörkum að halda hefði ákefðin í leikmönnum alveg örugglega verið meiri, en í baráttunni við Holland og Tékkland gilda innbyrðis úrslit fram yfir heildarmarkatölu úr riðlinum og því óhemju ólíklegt að markamunurinn í gær skipti einhverju máli.

Ída Marín Hermannsdóttir kom inn á þegar 25 mínútur voru eftir og lék sinn fyrsta A-landsleik, 19 ára gömul. Foreldrar hennar, Ragna Lóa Stefánsdóttir og Hermann Hreiðarsson, léku bæði tugi leikja fyrir íslenska landsliðið. Á sama tíma kom Natasha Anasi inn á í vörn Íslands, í sínum fyrsta leik í undankeppni fyrir Ísland.

Svava Rós Guðmundsdóttir leysti svo Berglindi af í fremstu víglínu síðustu tíu mínúturnar, en áfram var rólegt yfir leiknum í seinni hálfleik og mörkin urðu ekki fleiri.

Ísland leikur næst í undankeppninni í apríl þegar liðið sækir Hvíta-Rússland heim og fer svo til Tékklands í afar þýðingarmikinn leik 12. apríl, þegar spennan fyrir EM verður jafnframt farin að aukast.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira