Veður

Glitský gleðja höfuðborgarbúa

Kjartan Kjartansson skrifar
Glitský yfir Hengilsvæðinu séð frá Reykjavík um klukkan 9:30 föstudagsmorguninn 26. nóvember 2021.
Glitský yfir Hengilsvæðinu séð frá Reykjavík um klukkan 9:30 föstudagsmorguninn 26. nóvember 2021. Vísir/Vilhelm

Nokkur litskrúðug glitský sáust á austurhimni frá höfuðborginni í morgun. Ský af þessu tagi sjást helst um miðjan vetur við sólarupprás eða sólsetur.

Skýin voru greinileg á annars heiðum morgunhimninum í átt að Hengilsvæðinu. Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, náði myndunum sem fylgja fréttinni um klukkan hálf tíu í morgun.

Glitský myndast þegar óvenjukalt er í heiðhvolfinu í um fimmtán til þrjátíu kílómetra hæð yfir yfirborði jarðar þegar hitastigið er um eða undir -70 til -90°C. Þau eru úr ískristöllum og sjást helst um miðjan vetur þegar sólin er við það að koma upp yfir sjóndeildarhringinn eða er nýfarin niður fyrir hann.

Skýin eru litrík og greinileg á lofti því þau eru jafnan böðuð sólarljósi jafnvel þó að rökkvað eða aldimmt sé við jörð, að því er segir í grein um glitský á vef Veðurstofu Íslands.

Litadýrðin skýrist af ískristöllunum sem beygja sólarljósið. Ólíkar bylgjulengdir ljóss beygjast mismikið. Sem dæmi er nefnt að blátt ljós beygist meira en rautt og því sjást litirnir hvor á sínum hluta glitskýs.

Oft eru glitský hvít í miðjunni en jaðrarnir gulir, rauðir, grænir og bláir. Rauðir, gulir og grænir flekkir geta einnig myndast vegna þess að litirnir eru háðir stærðardreifingu agna í skýjunum.

Enn meira áberandi glitský sáust yfir höfuðborgarsvæðinu 28. desember í fyrra sem vöktu mikla athygli borgarbúa.

Glitský yfir Reykjavík föstudagsmorguninn 26. nóvember 2021.Vísir/Vilhelm

Tengdar fréttir

Íslendingar agndofa yfir litadýrð á himnum

Mikil litadýrð á himnum hefur vakið mikla athygli Íslendingar í morgunsárið. Svokölluð glitský hafa verið áberandi og hafa fjölmargir tekið myndir af þeim. Svo virðist sem glitský hafi sést víðsvegar um landið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.