Íslenski boltinn

Þungavigtin: Vann Lengjudeildina og á leið í unglingaþjálfun

Þungavigtin skrifar
Kristján Óli, Rikki G og Mikael fara í hringinn að minnsta kosti tvisvar í viku.
Kristján Óli, Rikki G og Mikael fara í hringinn að minnsta kosti tvisvar í viku.

Ríkharð Óskar Guðnason greindi frá því í nýjasta þætti Þungavigtarinnar, eftir rúnt í Grafarvoginn, að þjálfarinn Helgi Sigurðsson væri kominn með nýtt starf eftir að hafa hætt hjá ÍBV.

Helgi skilaði Eyjamönnum upp í úrvalsdeild karla í fótbolta í sumar með sigri í Lengjudeildinni en hætti svo óvænt af fjölskylduástæðum. 

Nú er hann að taka við 2. flokki Fjölnis og 3. deildarliði Vængja Júpiters en bæði félög eru með sínar bækistöðvar í Grafarvoginum:

„Það er stórt fyrir Vængina og fyrir Fjölni að fá þjálfara sem var að fara upp í efstu deild,“ sagði Kristján Óli Sigurðsson í umræðum um málið í Þungavigtinni.

„Og hefur gert Víkinga að Íslandsmeisturum í 3. flokki,“ skaut Mikael Nikulásson inn í.

Úlfur Arnar Jökulsson var áður þjálfari Vængja Júpiters og 2. flokks Fjölnis en tók í haust við af meistaraflokki Fjölnis af Ásmundi Arnarssyni.

Þungavigtarmenn sögðu að koma Helga og svo Ólafs Stígssonar, fyrrverandi þjálfara Fylkis, í stöðu yfirþjálfara yngri flokka, sýndi að mönnum væri alvara hjá Fjölni.

„Þannig að það er metnaður í Grafarvogi og það er bara fínt. En það er spurning hvort að Helgi sé kannski pínu sár að fá ekki meistaraflokks-giggið,“ sagði Kristján.

„Hann hefur varla verið að leita eftir því,“ bætti Mikael við.

Þáttinn í heild sem og aðra þætti Þungavigtarinnar má finna á tal.is/vigtin.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.