Innlent

„Þetta er svo mikið þvaður í manninum að ég á ekki til orð“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir og Sigurður G. Guðjónsson ræddu málin á Sprengisandi í morgun.
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir og Sigurður G. Guðjónsson ræddu málin á Sprengisandi í morgun. Bylgjan

Hart var tekist á í umræðu um kynferðisofbeldi í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, framhaldsskólakennari og kynjafræðingur, og Sigurður G. Guðjónsson lögmaður ræddu málin.

„Þetta er svo mikið þvaður í manninum að ég á ekki til orð,“ segir Hanna. „Sigurður stendur, og stóð, fyrir herferð gegn þolanda kynferðisofbeldis og það að lýsa sig saklausan af því er algjörlega fráleitt.“

Hanna segir áhugavert að sjá muninn á því hvernig umræðan er þegar um kynferðislegt eða kynbundið ofbeldi að ræða, ólíkt því þegar rætt er um annars konar ofbeldi. Viðbrögðin séu allt öðruvísi og sökin sett á þolendur. Svona hafi þetta verið lengi.

„Gleymum því aldrei að það er verið að biðja um réttlæti. Ef þú ætlar að komast yfir ofbeldi þá verðurðu að fá viðurkenningu á því að þú hafir verið beittur ofbeldi og það sé sannarlega ekki þér að kenna. Samfélagið hefur látið það í veðri vaka gagnvart þolendum og þeir hafa setið í þjáningu sinni og myrkrinu þangað til núna,“ segir Hanna Björg.

„Vitið þið það, ég bara á ekki til eitt einasta orð“

Hanna segir að orðræða Sigurðar sé til þess fallin að draga máttinn úr þolendum. Verið sé að gera umræðunni óleik og gjörðir Sigurðar lagi ekki neitt. Þvert á móti.

„Þú veist ekki einu sinni skilgreiningu á hugtökum, sem er mjög einfalt að gúggla. Að sitja þarna í einhverju forréttindasæti og ætla að segja konum hvernig þær tala saman. Vitið þið það, ég bara á ekki til eitt einasta orð,“ segir Hanna Björg.

Sigurður játar því að það halli á þolendur í málaflokki kynferðisofbeldis en beina þurfi gagnrýninni á ríkisvaldið. Megininntakið hljóti að felast í því að reyna að leiða hið sanna og rétta í ljós. Það verði þó ekki gert með upphrópunum.

„Ég er ekki forréttindapési“

Hanna segir Sigurð hafa áhyggjur af því að vera ekki lengur í forréttindastöðu. Sambærileg staða hafi komið upp á öllum sviðum samfélagsins. Konur séu taldar vera með yfirgang og frekju, þegar þær krefjast sömu réttinda og karlar. Hanna segist ekki geta gert annað en hlegið að Sigurði.

„Ég er ekki forréttindapési. Ég tek að mér mál fyrir bæði kyn, og öll kyn, og gæti hagsmuna minna skjólstæðinga að fremsta megni. Það er það eina sem ég geri,“ segir Sigurður.

„Hvar er þá réttarríkið fyrir þolendur?“

„Það eru til hér afskaplega hljóðlátar konur sem hafa unnið mjög gott verk við að reyna að bæta hlut þolenda í kynferðisbrotum. Það eru til lögmenn sem hafa unnið mjög gott starf þar. Þær eru ekkert alltaf hrópandi úti á torgum,“ heldur Sigurður áfram.

Hanna Björg segir Sigurð vera að þagga niður í konum og þolendum með orðræðunni en Sigurður heldur fast í réttarríkishugtakið. Hann segist ekki vera að reyna að reka þolendur ofbeldis ofan í holu.

„Auðvitað skiptir réttarríkið máli en það virkar bara ekki fyrir þolendur. Það vitum við. Hvar er þá réttarríkið fyrir þolendur?“ spyr Hanna Björg Vilhjálmsdóttir.

Viðmælendur Kristjáns eru með gjörólíkar skoðanir en hlusta má á viðtalið í heild sinni hér að neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.