Sport

Klessti bílinn á leiðinni á flug­völlinn og gleymdi veskinu heima

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Júlían J.K. Jóhannsson var valinn íþróttamaður Íslands árið 2019.
Júlían J.K. Jóhannsson var valinn íþróttamaður Íslands árið 2019. vísir/sigurbjörn óskarsson

Júlían J.K. Jóhannsson er á leið á HM í kraftlyftingum sem fram fer í Noregi. Hann flýgur ytra í dag og hann vonast eflaust til að fall sé fararheill miðað við vandræði dagsins.

Júlían er einn sterkasti maður Íslands ef ekki Evrópu og hefur slegið hvert Íslandsmetið á fætur öðru undanfarin ár. Hann á öll Íslandsmet þegar kemur að +120 kg flokki karla. Þá var hann valinn íþróttamaður Íslands árið 2019.

Júlían er nú á leið til Noregs þar sem hann mun taka þátt í heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum. Hann birti færslu á Twitter-síðu sinni fyrr í dag þar sem hann fór yfir þá ógæfu sem dundi yfir hann á leiðinni upp á Leifsstöð.

„Kominn upp a völl á leiðinni út á HM! Stemningin er góð þrátt fyrir að ég hafi klesst aðeins bílnum hennar Ellenar utan í annan hér á bílastæðinu og gleymt veskinu heima. Sem betur fer er ég með „sykurmömmu“ með,“ sagði Júlían á Twitter og birti mynd af sér skælbrosandi með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×