Erlent

Pólverjar saka Hvítrússa um að smala fólki að landamærunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Úr myndbandi sem tekið var úr þyrlu yfir landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands.
Úr myndbandi sem tekið var úr þyrlu yfir landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands. Varnarmálaráðuneyti Póllands

Pólverjar sökuðu í morgun stjórnvöld Hvíta-Rússlands um að undirbúa umfangsmikla ögrun með því að smala stórum hópi flótta- og farandfólks að landamærum Póllands. Fjöldi hermanna hafa verið sendir að landamærunum.

Utanríkisráðherra Póllands sagði í útvarpsviðtali að Hvítrússar vonuðust til þess að átök ættu sér stað og jafnvel að einhverjir yrðu skotnir til bana.

Það sagði hann í útvarpsviðtali samkvæmt frétt DW. Fyrr í morgun hafði Varnarmálaráðuneyti Póllands birt myndband sem tekið var úr þyrlu við bæinn Gmina Kuznica og sýndi fjölda fólks við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands.

Pólverjar segja hermenn frá Hvíta-Rússlandi hafa flutt hópinn að landamærunum. Myndbönd frá Hvíta-Rússlandi styðja þá ásökun en á þeim má sjá hermenn fylgja fólkinu.

NEXTA fréttaveitan, sem rekin er af andstæðingum Viktors Lukasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands, segja marga Kúrda frá Írak vera í hópnum og þar séu margar konur og börn. Þá segir fréttaveitan að hermenn hafi notað hunda til að smala fólki að landamærum Póllands.

Litháar hafa einnig sent hermenn að landamærum Litháens og Hvíta-Rússlands, samkvæmt frétt Reuters.

Evrópusambandið hefur sakað ríkisstjórn Lukasjenka um að nota flótta- og farandfólk sem vopn gegn Evrópu til að hefna fyrir refsiaðgerðir vegna mannréttindabrota ríkisstjórnar hans í Hvíta-Rússlandi. Ríkisstjórn hans hefur hvatt fólk frá Afríku og Mið-Austurlöndum til að ferðast þangað og reyna að komast þaðan til Evrópu.

Þá hafa Pólverjar verið gagnrýndir fyrir að reka fólkið aftur til Hvíta-Rússlands og sakaðir um að brjóta á réttindum þeirra.

Sjá einnig: Landamæravörðum veitt heimild til að vísa fólki frá án málsmeðferðar

Franak Viačorka, ráðgjafi Svetlönu Tíkanovskaju, sem er fyrrverandi forsetaframbjóðandi og einn helsti andstæðingur Lúkasjenka, segir ríkisstjórn Hvíta-Rússlands þvinga þetta flótta- og farandfólk til að sofa úti við erfiðar aðstæður. Þeim sé til að mynda meinað að fara inn í verslunarmiðstöðvar og lestarstöðvar.

Fólk hefur fundist látið beggja megin við landamærin.

Hér má sjá myndand frá landamærunum.


Tengdar fréttir

Vill breyta stjórnarskrá til að útiloka stjórnarandstöðuna

Alexander Lúkasjenka, forseti Hvíta-Rússlands, talar nú fyrir breytingum á stjórnarskrá landsins til að koma í veg fyrir að stjórnarandstaðan geti komist til valda. Hann boðar þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingarnar eigi síðar en í febrúar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×