Sport

Besta konan fékk betur borgað en besti karlinn á Rogue CrossFit mótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir á verðlaunapallinum með þeim Tiu-Clair Toomey og Gabrielu Migala.
Anníe Mist Þórisdóttir á verðlaunapallinum með þeim Tiu-Clair Toomey og Gabrielu Migala. Instagram/@rogueinvitational's profile picture rogueinvitational

Tia-Clair Toomey fékk best borgað af öllum á Rogue Invitational CrossFit mótinu sem fór fram um síðustu helgi og þar með meira en sigurvegarinn hjá körlunum.

Toomey fékk alls 266.380 Bandaríkjadali fyrir að vinna mótið og þar með er talið tíu þúsund dala bónus fyrir að vinna tvær greinar. Þetta gera rúmar 34,6 milljónir íslenskra króna.

Toomey fékk fimm þúsund dölum meira en Justin Medeiros sem vann hjá körlunum.

Anníe Mist Þórisdóttir varð í öðru sæti hjá konunum og fékk þriðja mest allra á mótinu í verðlaunafé eða alls 99.435 Bandaríkjadali. Anníe Mist kom því heim með tæplega þrettán milljónir króna.

Anníe Mist fékk peninginn fyrir að ná í silfrið en einnig fyrir að vinna tvær greinar. Anníe var í harðri baráttu um sigurinn en tókst ekki nógu vel upp í lokagreininni. Hún missti um leið að rúmum tuttugu milljónum í verðlaunafé.

Anníe fékk jafnmikið og Patrick Vellner sem varð annar hjá körlunum.

Jeffrey Adler og Gabriela Migala, sem urðu bæði í þriðja sæti, fengu jafnmikið eða samtals 47.699 dali eða 6,2 milljónir króna.

Verðlaunaféð var beintengt sölu miða á mótið og hækkaði því um leið og fleiri aðgöngumiðar seldust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×