Sport

Rod­gers með veiruna og missir af leiknum Chiefs

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikstjórnandi Green Bay Packers greindist með Covid-19 í dag.
Leikstjórnandi Green Bay Packers greindist með Covid-19 í dag. AP Photo/Tony Avelar

Aaron Rodgers, leikstjórnandi Green Bay Packers í NFL-deildinni, hefur greinst með kórónuveiruna og mun missa af leik Packers og Kansas City Chiefs um helgina.

Athygli vekur að Rodgers gaf út að hann væri bólusettur en samkvæmt deildinni er hann það ekki og þarf því að fara í einangrun í tíu daga hið minnsta sökum smitsins. 

Packers verða því án hins 37 ára gamla leikstjórnandi í leik helgarinnar gegn Chiefs sem hafa átt undir högg að sækja það sem af er tímabili. Packers hefur verið á miklu flugi en eftir óvænt tap gegn New Orleans Saints í fyrstu umferð hefur liðið unnið sjö leiki í röð.

Í síðustu umferð lá Arizona Cardinals í valnum en Cardinals höfðu unnið alla sjö leiki sína í deildinni fram að því.

Óvíst er hvernig Rodgers smitaðist en hann er annar leikmaður liðsins á skömmum tíma sem greinist. Davante Adams missti af sigrinum gegn Cardinals og vonast Packers eftir að liðið geti sótt sigur í greipar Chiefs þó svo að Rodgers verði fjarri góðu gamni.


NFL er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NFL er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði. Beinar útsendingar frá öllum leikjum eru á NFL Game Pass sem hægt er að kaupa sem viðbót við Sportpakkann á 2.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×