Tónleikana heldur Björk með stórum hópi íslensks tónlistarfólks sem hún hefur unnið með í gegn um árin, en tónleikarnir eru einnig til styrktar Kvennaathvarfsins.
Björk klæddist kjól frá Balenciaga og var með grímu frá James T. Merry. Hún var einnig með eyrnalokka frá Aurum. Stílisti Bjarkar var engin önnur en Edda Guðmundsdóttir. Steinunn Ósk sá um hár söngkonunnar og Sunna Björk Erlingsdóttir sá um að farða hana.

Hverjir og einir tónleikar í tónleikaröðinni eru með sérstökum útsetningum, og kom hún í þetta sinn fram með Hamrahlíðarkórinn sér til halds og trausts.
Kórstjórnandi hans er eins og þekkt er Þorgerður Ingólfsdóttir og þakkaði Björk henni sérstaklega fyrir starf sitt í gegnum árin. Gekk hún svo langt að segja að hún ætti þátt í tónlistaruppeldi flests starfandi tónlistarfólks landsins, og spurði svo létt í bragði hvort það væri ekki rétt hjá sér að það hefði flest þess verið í kórnum á einhverjum tímapunkti.

Einnig lék Bergur Þórisson á ýmis hljómborð og orgel og Bjarni Frímann lék á píanó. Björk lék mestmegnis lög af plötunum Medulla, Biofilia, Utopia auk nokkurra annarra, þar á meðal Human Behaviour í óhefðbundinni útgáfu eftir uppklapp.
Hamrahlíðarkórinn leið um sviðið í lausri kóreografíu sem jók enn á þegar tilfinningaþrungið andrúmsloft tónleikanna, sem var verulega litað af mjög myndrænum og sterkum kórútsetningunum. Á köflum minntu þær einna helst á kvikmyndatónlist, og náðu eins konar hápunkti í síðasta laginu fyrir uppklapp, Where Is the Line?, þar sem kórsöngurinn féll áreynslulaust að tryllingslegum taktinum.

Á tónleikunum fyrir tveimur vikum kom hún fram með strengjasveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, á þeim næstu verður hún með blásaraflokki Sinfó og á þeim síðustu með 15 manna kammersveit úr Sinfóníunni.
Enn eru tveir tónleikar eftir en uppselt er á þá báða, enn er hægt að kaupa miða í streymi. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar fleiri myndir sem ljósmyndarinn Santiago Felipe tók í Hörpu í gær.





