Innlent

Ráðuneytið útilokar ekki vafaatriði og ágreining í uppkosningum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þess ber að geta að í lögum um kosningar til Alþingis er á fimm stöðum fjallað um uppkosningar en hvergi um endurtalningu líkt og þá sem átti sér stað í Norðvesturkjördæmi.
Þess ber að geta að í lögum um kosningar til Alþingis er á fimm stöðum fjallað um uppkosningar en hvergi um endurtalningu líkt og þá sem átti sér stað í Norðvesturkjördæmi.

Það er álit dómsmálaráðuneytisins að í uppkosningum sé einungis endurtekin atkvæðagreiðsla í því kjördæmi þar sem álitamál eru uppi. Þá séu sömu framboð í kjöri og notast skuli við sömu kjörskrá og í fyrri atkvæðagreiðslu.

Ekki sé um nýtt ferli að ræða heldur framhald á því ferli sem áður var hafið með reglubundnum kosningum. Þetta kemur fram í minnisblaði ráðuneytisins til Alþingis, sem óskaði eftir upplýsingum um þær reglur sem giltu um uppkosningar.

Í minnisblaðinu er fjallað um uppkosningar í lögum um kosningar til Alþingis, bæði eins og lögin standa í dag og í sögulegu samhengi. Þar segir að í lögunum sé ekki að finna heildstæða umfjöllun um framkvæmd uppkosninga né skilgreiningu á hugtakinu en þeirra sé þó getið í fimm greinum, meðal annars 115. grein, sem hljóðar svo:

„Nú verður uppkosning nauðsynleg fyrir það að kosning er úrskurðuð ógild skv. 46. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 120. og 121. gr. þessara laga, og skal þá ráðuneytið með auglýsingu kveðja til nýrra kosninga í kjördæmi og ákveða kjördag svo fljótt sem því verður við komið og eigi síðar en innan mánaðar. 

Að öðru leyti fer kosning fram samkvæmt fyrirmælum þessara laga.“

Í minnisblaðinu ítrekar dómsmálaráðuneytið að uppkosningar hafi ekki áður farið fram í heilu kjördæmi. Auk þess dreifist ábyrgð á framkvæmd kosninga til Alþingis á fleiri aðila, þar með taldar yfirkjörstjórnir, sem ráðuneytið hafi ekki boðvald yfir né eftirlit með.

„Því verður á engan hátt útilokað að við skipulagningu og framkvæmd uppkosninga kæmu í ljós enn fleiri vafaatriði en þau sem hér hefur verið fjallað um og að um þau rísi ágreiningur,“ segir í minnisblaðinu.

Það ber að nefna í þessu samhengi að í lögum um kosningar til Alþingis er ekkert að finna um endurtalningu líkt og þá sem fór fram í Norðvesturkjördæmi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.