Innlent

Ærslabelgurinn óumdeildur sigurvegari kosninganna

Eiður Þór Árnason skrifar
Ærslabelgurinn hefur heldur betur slegið í gegn hjá landanum.
Ærslabelgurinn hefur heldur betur slegið í gegn hjá landanum. Vísir/Egill

Stefnt er að því að setja upp alls þrettán nýja ærslabelgi í Reykjavík á næsta ári í samræmi við niðurstöður í íbúakosningunni Hverfið mitt.

Kosningunni lauk á fimmtudag en metþátttaka var í öllum hverfum þetta árið. Íbúar Reykjavíkur gátu að þessu sinni valið um 277 hugmyndir en 111 þeirra hlutu kosningu og verða framkvæmdar. Óhætt er að segja að litríka hoppudýnan hafi verið óumdeildur sigurvegari kosninganna að þessu sinni en til samanburðar hlaut einn belgur brautargengi í þarseinustu íbúakosningu sem fram fór árið 2019.

Stendur nú til að koma fyrir slíku afþreyingartæki í Árbæjarhverfi, Norðlingaholti, Seljahverfi, Efra Breiðholti, Neðra Breiðholti, Leirdal, Laugardal, á Kjalarnesi, í Háleiti og Bústöðum, Vesturbænum og tveimur í Grafarvogi.

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gerðu niðurstöður kosningarinnar að umtalsefni á dögunum. 

Minnst hundrað litríkir belgir um allt land

Ærslabelgurinn hefur slegið í gegn hjá Íslendingum á seinustu árum og fer að verða sífellt erfiðara að finna sveitarfélag sem getur ekki státað sig af slíkri bæjarprýði. Ekki liggur fyrir hversu marga belgi má nú finna á landinu en fram kom í viðtali Fréttablaðsins við Einar Karlsson, innflytjanda ærslabelgjanna, að hann hafi sett upp hundraðasta belginn á Íslandi sumarið 2020.

Fyrsti ærslabelgurinn var settur upp í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum árið 2006 en sprenging varð í uppsetningu þeirra fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Trausti Dagsson forritari unnið að því að kortleggja staðsetningu hvers einasta ærslabelgs á landinu og gera fólki kleift að finna nærliggjandi belgi með auðveldum hætti á sérstakri vefsíðu. Óljóst er hvenær kortið var síðast uppfært.


Tengdar fréttir

Allt loft úr ísfirska ærslabelgnum

Minjastofnun hefur farið þess á leit við Ísafjarðarbæ að viðgerðir á svokölluðum ærslabelg á Eyrartúni verði stöðvaðar.

Ærslabelgur í klóm eineltishrotta

Hópur foreldra og forráðamanna barna í Reykjanesbæ hefur áhyggjur af því að leiksvæði ungmenna við 88 húsið, svokallaður Ungmennagarður, sé í heljargreipum eineltishrotta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×