Enski boltinn

Yfir 40% stuðningsmanna Tottenham segjast myndu hætta að mæta á leiki

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmenn Tottenham Hotspur eru ekki hrifnir af yfirtöku sádi-arabíska sjóðsins PIF á Newcastle.
Stuðningsmenn Tottenham Hotspur eru ekki hrifnir af yfirtöku sádi-arabíska sjóðsins PIF á Newcastle. Tottenham Hotspur FC/Tottenham Hotspur FC via Getty Images

Ný könnun meðal stuðningsmanna Tottenham sýnir að um 41% þeirra myndi hætta að mæta á leiki liðsins ef félagið myndi ganga í gegnum svipuð eigendaskipti og Newcastle, en liðin mætast í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Yfirtaka sádi-arabíska sjóðsins PIF á enska knattspyrnufélaginu Newcastle hefur haft áhrif á öll hin 19 lið úrvalsdeildarinnar, en nýir eigendur félagsins eru þeir langríkustu, ekki bara í deildinni, heldur í heimsfótboltanum.

Þar sem að Newcastle tekur á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni seinna í dag, ákvað íþróttamiðillinn The Athletic að spyrja stuðningsmenn Tottenham hvernig þeim litist á yfirtöku andstæðinga þeirra.

Stuðningsmennirnir fengu fimm spurningar, en svörin við einni þeirra koma þó kannski mest á óvart. Tæplega 2.000 manns tóku þátt í könnuninni.

Í þeirri spurningu voru stuðningsmennirnir spurðir að því hvort að þeir myndu hætta að styðja liðið, eða hætta að mæta á leiki liðsins, ef svipuð eigendaskipti ætti sér stað hjá Tottenham. Af þeim sem svöruðu voru 41% sem svöruðu játandi.

Í sömu könnun kom einnig fram að tæplega 80% stuðningsmanna Tottenham vilja hafa svipaða eigendauppbyggingu og er núna, frekar en þá sem er hjá Newcastle eftir yfirtökuna.

Þá sögðust 69% aðspurða finna fyrir reiði, pirringi, eða vera vonsviknir með yfirtökuna, á meðan aðeins rétt rúm 16% sögðust öfunda Newcastle af nýju eigendunum.

Hvort sem að þessar niðurstöður endurspegli tilfinningar stuðningsmanna annara liða í ensku úrvalsdeildinni eða ekki, er nokkuð ljóst að mörgum þykir ekki mikið til hennar koma.


Tengdar fréttir

Newcastle komið í eigu Sádi-Araba

Yfirtöku sádi-arabíska sjóðsins PIF á enska knattspyrnufélaginu Newcastle er nú lokið. Sjóðurinn hefur keypt 80% hlut í félaginu sem verið hafði í eigu Mike Ashley síðastliðin 14 ár.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.