Sport

Mér líður eins og ég get ekki fengið á mig mörk

Andri Már Eggertsson skrifar
Ingvar Jónsson fagnar Mjólkurbikarnum
Ingvar Jónsson fagnar Mjólkurbikarnum Vísir/Hulda Margrét

Víkingur vann ÍA 3-0 í úrslitaleik Mjólkurbikarsins 2021. Árið 2021 hefur verið frábært hjá Víkingi sem er Íslands- og bikarmeistari. Ingvar Jónsson, markmaður Víkings, var afar kátur í leiks lok. 

„Tilfinningin að verða Íslands- og bikarmeistari á sama tímabilinu er geðveik. Ég hefði ekki getað giskað á þetta fyrir mót en hlutirnir eru fljótir að breytast og þetta small allt fyrir okkur,“ sagði Ingvar Jónsson í skýjunum. 

Ingvar var ánægður með undirbúning liðsins fyrir bikarúrslitaleikinn og fann hann ekki fyrir pressu.

„Maður fór pressulaus í gegnum undirbúninginn. Við höfðum þegar tryggt Meistaradeildarsætið svo það var engin óþarfa pressa á okkur fyrir leik.“

Ingvar hrósaði sóknarleik Víkings og fannst leikurinn aldrei í hættu. 

„Gæði okkar sóknarlega vann leikinn. ÍA spilaði vel og gerði okkur erfitt fyrir á tímabili. Mér fannst þetta aldrei vera í hættu. Við gerðum þetta af fagmennsku líkt og í síðustu tíu leikjum.“

 

Ingvar Jónsson átti góðan leik í marki Víkings og varði vel þegar ÍA kom boltanum á markið.

„Ég var ánægður með minn leik í dag. Mér leið ótrúlega vel, sjálfstraustið er í botni og mér líður eins og ég get ekki fengið á mig mörk. Það komu augnablik þar sem ég þurfti að vera klár til að hjálpa liðinu og það gekk eftir,“ sagði Ingvar Jónsson. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×