Sport

Dagskráin í dag: Olís-deildin, undankeppni HM 2022 og tölvuleikir

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Haukar taka á móti Stjörnunni í Olís-deild karla í kvöld.
Haukar taka á móti Stjörnunni í Olís-deild karla í kvöld. vísir/vilhelm

Sportrásir Stöðvar 2 bjóða upp á sjö beinar útsendingar í dag, en þar á meðal eru tveir leikir í Olís-deild karla í handbolta og einn leikur í undankeppni HM 2022.

Dagurinn byrjar hins vegar á Stöð 2 eSport þar sem að riðlakeppni heimsmeistaramótsins í League of Legends hefst klukkan 11:00. Undanreiðlunum er lokið og nú mæta allra bestu liðin til leiks, en opnunarleikurinn er viðureign ríkjandi heimsmeistara í DWG KIA gegn kínverska stórliðinu FPX.

Tölvuleikjadeginum er þó ekki lokið þegar seinasti leikur dagsins í League of Legends er búinn, en strákarnir í Game Tíví verða í sviðsljósinu í kvöld frá klukkan 20:00 á Stöð 2 eSport.

Klukkan 17:50 hefst bein útsending frá Seltjarnarnesi þar sem að Grótta tekur á móti Fram í Olís-deild karla á Stöð 2 Sport. Að þeim leik loknum verður svo viðstöðulaust skipt yfir í Hafnarfjörðinn þar sem að Haukar taka á móti Stjörnunni. Seinni bylgjan er svo á sínum stað eftir leik þar sem að Stefán Árni Pálsson , ásamt sérfræðingum, fer yfir þriðju umferð Olís-deildarinnar.

Fótboltinn á einnig sinn sess í dag, en Norður-Makedónía tekur á móti Þýskalandi á Stöð 2 Sport 2 klukkan 18:35, og Markaþáttur HM 2022 leiðir okkur inn í kvöldið að leik loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×