Erlent

Tali­banar ætli ekki að starfa með Banda­ríkja­mönnum gegn ISIS

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá vettvangi sprengjuárásar á mosku í borginni Kunduz í norðurhluta Afganistan. ISIS hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni, þar sem 46 manns týndu lífi og fjöldi fólks særðist.
Frá vettvangi sprengjuárásar á mosku í borginni Kunduz í norðurhluta Afganistan. ISIS hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni, þar sem 46 manns týndu lífi og fjöldi fólks særðist. AP/Abdullah Sahil

Talibanar, sem nú fara með völdin í Afganistan, hafa hafnað hugmyndum um að vinna að því í samstarfi við Bandaríkjamenn að kveða í kútinn öfgasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki, ISIS. Samtökin hafa sótt í sig veðrið í landinu frá því Bandaríkjaher yfirgaf það í ágúst og hafa þau lýst yfir ábyrgð á fjölda mannskæðra árása í landinu að undanförnu.

AP-fréttaveitan greinir frá því að mögulegt samstarf Bandaríkjamanna og Talibana gegn ISIS sé eitt þeirra atriða sem aðila greinir verulega á um í viðræðum sem nú fara fram í Doha, höfuðborg Katar, milli fulltrúa bandarískra stjórnvalda og Talibana.

Haft er eftir talsmanni stjórnar Talibana, Suhail Shaheen, að enginn möguleiki væri á að til slíks samstarfs kæmi.

„Við getum tekist á við [ISIS] sjálfir,“ sagði hann þegar hann var inntur eftir því hvort Talibanar gætu hugsað sér að vinna með Bandaríkjamönnum, sem höfðu þar til fyrr á þessu ári verið með fasta hernaðarviðveru í landinu í 20 ár.

ISIS hefur lýst yfir ábyrgð á fjölda árása í Afganistan á síðustu árum, en eru sögð vera að sækja í sig veðrið nú þegar Bandaríkjamanna nýtur ekki lengur við í landinu. Þannig féllu 46 manns í árás á mosku í borginni Kunduz á föstudag, og tugir særðust.

Viðurkenni ekki völd Talibana

Meðal annars sem til umræðu er í viðræðum aðila um helgina er friðarsamkomulag Talibana við bandarísk stjórnvöld, sem gert var á síðasta ári.

Þar var kveðið á um brotthvarf bandaríska heraflans frá Afganistan, meðal annars að Talibanar skyldu hleypa útlendingum og innlendu samstarfsfólki erlendra aðila óhindrað úr landi.

Er búist við því að bandaríska sendinefndin muni þrýsta á um að Talibanar virði þau fyrirheit, sem og að réttindi kvenna og stúlkna til náms og starfa verði virt, og að alþjóðlega hjálparstofnanir fái að starfa á svæðum þar sem fólk á um sárt að binda vegna skorts á mat og öðrum nauðsynjum.

Heimildarmaður AP úr ranni Bandaríkjastjórnar lagði áherslu á að í viðræðunum fælist ekki viðurkenning á Talibönum sem lögmætum stjórnvöldum í Afganistan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×