Íslenski boltinn

Hall­dór Orri spilar kveðju­leik sinn á laugar­daginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halldór Orri Björnsson hefur fært sig aftar á völlinn síðustu ár.
Halldór Orri Björnsson hefur fært sig aftar á völlinn síðustu ár. Vísir/HAG

Stjarnan tekur á móti KR í 22. og síðustu umferð Pepsi Max deildar karla í fótbolta á laugardaginn og þar mun einn maður eiga hug og hjörtu stuðningmanna Stjörnunnar.

Halldór Orri Björnsson hefur tekið ákvörðun um að hætta hjá Stjörnunni og spilar kveðjuleik sinn í lokaumferðinni.

Halldór Orri en næstleikjahæsti leikmaður Stjörnunnar í efstu deild á eftir Daníel Laxdal og sá næstmarkahæsti á eftir Hilmari Árna Halldórssyni. Hann er fæddur árið 1987 og er því orðinn 34 ára gamall.

„Þessi leikur hefur samt sem áður mikla þýðingu fyrir einn af okkar dyggustu þjónum frá upphafi og jafnframt einn markahæsta leikmann okkar í efstu deild. Halldór Orri mun leika kveðjuleik sinn á laugardaginn þegar KR mætir í heimsókn í lokaumferð Pepsi Max deildarinnar,“ segir í frétt á fésbókarsíðu Stjörnumanna.

Halldór Orri snéri aftur í Stjörnuna fyrir síðasta tímabil eftir nokkur ár í FH en hann spilaði sinn fyrsta deildarleik með Stjörnunni fyrir sautján árum.

Þetta er hans þrettánda meistaraflokkstímabil með Garðabæjarliðinu en fyrstu fjögur tímabilin hans var liðið í 1. deildinni.

Stjarnan komst upp árið 2008 og hefur spilað í úrvalsdeildinni síðan. Halldór Orri fór í eitt ár út í atvinnumennsku og missti því af Íslandsmeistaraárinu 2014.

„Fjölmennum á völlinn og kveðjum Dóra almennilega, eins og hann á svo sannarlega skilið,“ segir í frétt Stjörnumanna.

Halldór Orri Björnsson er með 61 mark og 31 stoðsendingu í 214 leikjum í efstu deild fyrir Stjörnuna og FH.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.