Erlent

Pi­ers Morgan til Fox

Þorgils Jónsson skrifar
Rupert Murdoch, stjórnarformaður News Corp, og Piers Morgan voru keikir með væntanlegt samstarf, en Morgan hefur gengið til liðs við News Corp og Fox News Media.
Rupert Murdoch, stjórnarformaður News Corp, og Piers Morgan voru keikir með væntanlegt samstarf, en Morgan hefur gengið til liðs við News Corp og Fox News Media.

Breski fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan gekk í dag til liðs við Rupert Murdoch og félög hans, News Corp og Fox News Media. Morgan mun framleiða efni þvert á miðla News Corp sem mun birtast um allan heim.

Meðal annars verður hann með daglega þætti á nýrri sjónvarpsstöð, talkTV frá og með næsta ári, en hann mun einnig skrifa pistla fyrir New York Post og breska götublaðið The Sun.

Morgan hefur komið víða við á löngum ferli, sem hófst einmitt hjá Murdoch á Sun og svo hinu sáluga News of the World. Síðan þá hefur hann meðal annars stýrt Daily Mirror og komið fram í hinum ýmsu skemmtiþáttum, þar sem helst má nefna Britain‘s got Talent og bandarísku útgáfuna af sama þætti.

Síðustu sex á stýrði hann morgunþættinum Good Morning Britain á ITV, en hætti þar í vor eftir að hafa rokið út í fússi í beinni útsendingu eftir snarpa snerru við samstarfsfélaga.

Morgan hefur verið talsvert umdeildur í gegnum árin þar sem hann var meðal annars í hringiðu símhleranahneykslisins sem skók breska fjölmiðlaheiminn í upphafi aldarinnar.

Síðan þá hefur hann blandað sér í mörg hitamál, en fá með eins afgerandi hætti og hvað varðar Harry Bretaprins og eiginkonu hans, Meghan Markle. Hann gerði lítið úr frásögn hennar um sjálfsvígshugleiðingar í tengslum við deilur innan konungsfjölskyldunnar, og hlaut fyrir vikið tugir þúsunda kvartana frá áhorfendum.

Murdoch lýsti yfir ánægju með að hafa fengið Morgan til liðs við sig – „sjónvarpsmann sem allar stöðvar vilja en engin þorir að ráða.“


Tengdar fréttir

Sakar Markle og Harry um „lygar á alheimsskala“

Piers Morgan heldur fast í þær fullyrðingar sínar að Meghan Markle og Harry Bretaprins hafi logið í viðtali við Opruh Winfrey á dögunum og segist njóta stuðnings verulegs meirihluta bresku þjóðarinnar.

Aldrei fleiri kvartanir borist

Rúmlega 57 þúsund kvartanir hafa borist breska eftirlitsaðilanum Ofcom í kjölfar þáttar Good Morning Britain í síðustu viku þar sem viðtal Opruh Winfrey við hertogahjónin af Sussex var til umræðu. Aldrei hafa jafn margar kvartanir borist fjölmiðlaeftirlitinu vegna sjónvarpsefnis áður.

Piers Morgan móðgaðist og strunsaði út úr stúdíóinu

Piers Morgan, einn þáttastjórnanda Good Morning Britain á ITV-sjónvarpsstöðinni, strunsaði út úr myndverinu í beinni útsendingu í morgun í kjölfar umræðu um hið margumtalaða viðtal Opruh Winfrey við Meghan Markle og Harry Bretaprins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×