Fótbolti

Klopp gerði undantekningu og hrósaði leiðtoga andstæðinganna í hástert

Sindri Sverrisson skrifar
Simon Kjær á leið inn á völlinn á Anfield í gær, í undirbúningi fyrir leikinn í kvöld.
Simon Kjær á leið inn á völlinn á Anfield í gær, í undirbúningi fyrir leikinn í kvöld. Getty/Claudio Villa

Liverpool mætir AC Milan á Anfield í stórleik kvöldsins í Meistaradeild Evrópu. Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, ákvað að hrósa sérstaklega einum leikmanna Milan fyrir leikinn.

Danski landsliðsfyrirliðinn Simon Kjær heillaði greinilega Klopp eins og marga aðra þegar hann átti sinn þátt í að bjarga lífi Christians Eriksen á Evrópumótinu í fótbolta í sumar.

Kjær kom hlaupandi fram völlinn þegar Eriksen féll til jarðar og kom honum í læsta hliðarlegu svo að tungan lokaði ekki öndunarveginum.

„Vanalega einbeiti ég mér að eigin leikmönnum en ekki andstæðingunum en í kvöld verð ég að gera undantekningu,“ skrifaði Klopp í leikhefti Liverpool vegna leiksins.

Jürgen Klopp á blaðamannafundi fyrir leikinn við AC Milan.Getty/Andrew Powell

„Í kvöld er mögulegt að Simon Kjær spili á móti okkur og það er manneskja sem að allur fótbolta- og íþróttaheimurinn ber mikla virðingu fyrir,“ skrifaði Klopp. Hann vísaði að sjálfsögðu til þess þegar Kjær kom til aðstoðar eftir að Eriksen fór í hjartastopp á Parken í júní, í leik gegn Finnlandi á EM.

„Þegar að menn lenda í hættulegum aðstæðum þá sést sönn leiðtogahæfni. Ég held að heimurinn hafi enn meiri skilning á því nú en áður, eftir allt það sem gengið hefur á,“ sagði Klopp.

„Eins og milljónir annarra þá var ég í áfalli eftir það sem á gekk á Evrópumótinu í sumar, þegar Christian Eriksen hneig niður. Það voru margar hetjur á ferð það kvöld, ekki síst allt sjúkrateymi danska landsliðsins, á leikvanginum og á sjúkrahúsinu. En Simon skein á sinn eigin hátt á þessum átakanlega degi,“ skrifaði Klopp.

Leikur Liverpool og AC Milan hefst klukkan 19 í kvöld og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.