Sport

Gull­drengurinn segir að sér hafi verið nauðgað af eldri konu þegar hann var táningur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Oscar De La Hoya er á leið aftur í hringinn.
Oscar De La Hoya er á leið aftur í hringinn. Getty

Hnefaleikakappinn Oscar De La Hoya hefur opnað sig varðandi nauðgun sem hann varð fyrir aðeins 13 ára gamall. Konan var á fertugsaldri.

Hinn 48 ára gamli De La Hoya sem gekk undir nafninu Gulldrengurinn á meðan hnefaleikaferillinn ar í sem hæstum hæðum var í viðtali hjá Los Angeles Times þar sem hann er að undirbúa sig undir bardaga síðar í septembermánuði.

„Mér var nauðgað þegar ég var 13 ára, af eldri konu. Þrettán ára missti ég sveindóminn, mér var í rauninni nauðgað, hún var eldri en 35 ára,“ segir De La Hoya meðal annars í viðtalinu.

„Þú lokar þig alveg af. Þú ert að lifa þessu lífi – þú ert Gulldrengurinn – en andskotinn hafi það, það er allt ennþá kraumandi þarna undir niðri. Ég hugsaði aldrei um þetta, ég jafnaði mig í rauninni aldrei á þessu. Svo einn daginn kemur bara allt upp á yfirborðið og þú veist ekkert hvernig þú átt að höndla það.“

De La Hoya keppti á sínum tíma 45 bardaga sem atvinnumaður, vann 39 bardaga en tapaði sex. Í dag segist hann finna ákveðna sálarró í hnefaleikum og það sé ástæðan fyrir því að hann sé að snúa aftur í hringinn. Hann hafi verið kominn á myrkan stað og því hafi hann hafið æfingar að nýju.

„Ég gat ekki verið að drekka, taka eiturlyf og hitt eða þetta. Ég ákvað að henda lífi mínu ekki á glæ,“ sagði Gulldrengurinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×