Erlent

„Við munum finna ykkur og láta ykkur gjalda“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Biden ávarpaði bandarísku þjóðina í kvöld þar sem hann lýsti því yfir að bandaríski herinn skipuleggi nú gagnárás á ISIS-K. 
Biden ávarpaði bandarísku þjóðina í kvöld þar sem hann lýsti því yfir að bandaríski herinn skipuleggi nú gagnárás á ISIS-K.  getty/Anna Moneymaker

Joe Biden Bandaríkjaforseti var harðorður í garð hryðjuverkasamtakanna ISIS-K, sem stóðu að baki mannskæðri sprengjuárás á flugvellinum í Kabúl í dag, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í kvöld. 

Tólf bandarískir hermenn féllu í árásinni og fimmtán aðrir særðust þegar tveir sjálfsvígssprengjumenn sprengdu sig í loft upp við öryggishlið á alþjóðaflugvellinum í Kabúl í Afganistan í dag. Minnst níutíu Afganar féllu í árásinni, þar á meðal konur og börn og 150 eru særðir. 

Eftir að sprengjumennirnir höfðu sprengt sig í loft upp skutu aðrir meðlimir ISIS-K á almenning í Kabúl á færi. Þá hafa fregnir borist af minnst þremur sprengingum til viðbótar í dag en ekki er víst hvort einhverjir hafi fallið í þeim. 

Blaðamannafundurinn hófst í Hvíta húsinu á tíunda tímanum, að íslenskum tíma, í kvöld. Biden fór þar yfir atburði dagsins og hver næstu skref verða. Foringi herafla Bandaríkjanna hafði sagt á blaðamannafundi fyrr í dag að Bandaríkin væru tilbúin til að grípa til aðgerða gegn árásarmönnunum. 

Þetta staðfesti Biden á fundinum. 

„Við munum ekki fyrirgefa, við munum ekki gleyma. Við munum finna ykkur og láta ykkur gjalda,“ sagði Biden á fundinum og greindi hann jafnframt frá því að hann hafi þegar falið herforingjum sínum að skipuleggja gagnárás gegn ISIS-K, sem eru undirhópur alþjóðlegu hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. 

„Við munum bregðast við með valdi og með nákvæmni á okkar eigin tíma, á stað sem við veljum sjálf,“ bætti Biden við. „Þessir ISIS-hryðjuverkamenn munu ekki sigra. Við munum bjarga Bandaríkjamönnunum: við munum koma afgönskum bandamönnum okkar úr landinu og verkefni okkar heldur áfram. Bandaríkin láta ekki slá sig út af laginu.“

Biden greindi frá því að herforingjar Bandaríkjanna í Afganistan hafi í dag ítrekað það hve mikilvægt það sé að koma bandarískum ríkisborgurum úr landinu sem allra fyrst. Biden tilkynnti það í gærkvöldi að allt bandarískt herlið verði farið úr landinu fyrir 31. ágúst, samkvæmt samkomulagi við Talibana, og hann tilkynnti á fundinum áðan að það markmið hafi ekki breyst. 

Talið er að allt að þúsund Bandaríkjamenn séu enn að reyna að forða sér frá Kabúl. Frá því að Talibanar tóku völd í Afganistan fyrir tólf dögum síðan hefur Bandaríkjunum, Bretum og öðrum bandamönnum tekist að forða meira en 100 þúsund manns frá landinu. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.