Innlent

Velti bíl undir áhrifum og smitaður af Covid-19

Árni Sæberg skrifar
Nokkur erill var hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt.
Nokkur erill var hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Rétt fyrir klukkan átta í gærkvöldi var tilkynnt um bílveltu á Bústaðavegi. Ökumaður bílsins er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá er ökumaðurinn smitaður af Covid-19 og hefði átt að vera í einangrun.

Ökumaðurinn var fluttur á bráðadeild til aðhlynningar en ekkert er vitað um líðan hans. Nokkrar skemmdir urðu á Bústaðavegi á ljósastaur, vegriði og staur fyrir myndavélakassa.

Auk bílslyssins hafði lögregla í nógu öðru að snúast í gærkvöldi og nótt samkvæmt dagbók hennar.

Upp úr átta í gærkvöldi var tilkynnt um slys í kvikmyndahúsi í Vesturbæ. Maður ætlaði að hlaupa út úr húsi til að læsa bifreið sinni áður en kvikmyndin byrjaði og hljóp í gegnum rúðu. Ekki er vitað um meiðsl.

Um hálf ellefu í gærkvöldi barst tilkynning um slys í Hafnarfirði. Kona hafði fallið af hestbaki og hesturinn ofan á hana. Talið er að konan hafi handleggsbrotnað og farið úr axlarlið. Konan var flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Bráðadeild.

Í Breiðholti voru tveir ökumenn stöðvaðir þar sem bifreiðar þeirra voru með sama skráningarnúmerið. Ökumennirnir voru kærðir fyrir misnotkun skráningarmerkja og fleira. Annar ökumannanna reyndist ekki vera með gild ökuréttindi.

Upp úr miðnætti var maður handtekinn í annarlegu ástandi í Breiðholti. Sá var vistaður í fangageymslu sökum ástands.

Upp úr fjögur í nótt var bifreið stöðvuð í Breiðholti. Ökumaðurinn er grunaður um ítrekaðan akstur bifreiðar án gildra ökuréttinda. Bifreiðin reyndist vera ótryggð og voru skráningarnúmer fjarlægð.

Rétt fyrir miðnætti var bifreið stöðvuð við Gullinbrú í Grafarvogi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum. Bifreiðin reyndist vera ótryggð og voru skráningarnúmer fjarlægð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×