Eftir að hafa legið í láginni í um fjóra sólarhringa tók eldgosið sig upp að nýju í nótt. Snemma í morgun farið að gusast hressilega úr gígnum, í fyrsta skipti frá því á mánudaginn.
Vísindamenn hafa verið við gosstöðvarnar í dag að kanna aðstæður.
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði í viðtali við Bylgjuna í dag: „Það er mjög öflugur og tilkomumikill hraunfoss með boðaföllum sem hefur verið að fæða Meradalina. Allur vestari hluti Meradala, það er nýtt hraun sem þekur hann.“
Engar grundvallarbreytingar orðið á gosinu
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur áréttar að eldgosið hafi ekki á neinum tímapunkti stöðvast, heldur hafi eldvirknin á yfirborðinu aðeins breyst.
„Þetta eru miklar breytingar, sem hafa orðið á virkninni í gígunum. Það er mjög athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess að framleiðni, aðfærsla kviku að neðan og upp í gegnum gíginn, hún hefur lítið sem ekkert breyst. Samt erum við að sjá þessar miklu sveiflur í gígavirkninni.
Það er fyrir mér mjög spennandi og athyglisvert og ég vil endilega skilja það betur,“ segir Þorvaldur.
Á þessari stundu er hraunstreymið aðallega inn í Meradali en kvikan hefur þegar þakið töluvert svæði fjallsins. Eldgosið hefur nú staðið í tæpa fjóra mánuði og lætur engan bilbug á sér finna.
"Ja, heldur þetta ekki bara áfram? Það er í sjálfu sér ekkert sem er að segja okkur það að endalok séu nærri eða neitt þess háttar. Það er greinilegt að það er enn aðstreymi af kviku upp í gegnum aðfærsluæðina og á meðan það er, þá heldur gosið áfram."
Enn á kafi í gosinu
Þótt almenningur kunni að leiða hugann sífellt minna að langvinnu gosinu, á það enn hug vísindamanna.
„Við erum á kafi í þessu. Þetta eiginlega á hug manns og tíma líka. Þetta er náttúrulega alveg einstakt tækifæri til að gera ákveðnar mælingar og í raun og veru setja upp ákveðnar tilraunir ef það má orða það svoleiðis.“
Þar sem vísindamenn geta ekki verið við gosstöðvarnar öllum stundum koma beinar útsendingar helstu fjölmiðla að góðum notum. Þorvaldur er með beina útsendingu Vísis og Stöðvar 2 í gangi á flatskjánum heima í stofu.