Erlent

Aðför gerð að hinsegin samfélaginu á WeChat

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir eru uggandi vegna þess hvernig afstaða samfélagsins til LGBT+ fólks er að þróast í Kína.
Margir eru uggandi vegna þess hvernig afstaða samfélagsins til LGBT+ fólks er að þróast í Kína. epa/How Hwee Young

Kínverskir netverjar eru klofnir í afstöðu sinni til nýjasta útspils tæknirisans Tencent, sem á samskiptamiðilinn WeChat. Á þriðjudag var fjölda aðganga hinsegin hópa lokað og öllum gömlum færslum eytt.

Samkvæmt BBC voru flestir aðganganna á vegum háskólanema en aðgerðirnar hafa vakið áhyggjur af aukinni ritskoðun gegn LGBT+ samfélaginu.

Margir kínverskir netverjar lýstu yfir hneykslan og stuðningi við hinsegin félögin en aðrir sögðust fagna því að loksins hefði verið þaggað niður í þeim.

Í gær höfðu að minnsta kosti tvö háskólafélög sem berjast fyrir jafnrétti til handa hinsegin fólki og veita hinsegin nemum stuðning sent frá sér yfirlýsingu þar sem aðgerðirnar voru gagnrýndar.

Talsmenn bandaríska utanríkisráðuneytisins sögðust í gær hafa áhyggjur af þessari þróun mála en í Kína virðast aðgerðirnar njóta nokkurs stuðnings.

„Mér er alveg sama þótt LGBT-samfélagið geri sitt í hljóði en af hverju þarf það að flagga hugmyndafræði sinni framan í mig í gegnum þessi félög? Það var rétt að loka á þau,“ sagði einn notandi samfélagsmiðilsins Weibo.

Eigendum þeirra síða sem var lokað var tilkynnt um að þeir hefðu verið klagaðir fyrir brot á reglum, án þess að það væri útlistað um hvaða brot væri að ræða. 

Svo virðist sem aukinnar hörku sé að gæta gagnvart hinsegin samfélaginu í Kína. Lög gegn samkynhneigð voru felld úr gildi árið 1997 en í fyrra var Pride-hátíðin í Sjanghæ felld niður án ástæðu, í fyrsta sinn í ellefu ár.

Þá sögðust forsvarsmenn Weibo árið 2018 hyggjast eyða öllum færslum er vörðuðu samkynhneigð en hættu við eftir hörð mótmæli. 

Óskarsverðlaunamyndin Bohemian Rhapsody, sem fjallar um ævi Freddie Mercury, var einnig ritskoðuð í Kína, á þann veg að öll atriði þar sem komið var inn á kynhneigð eða HIV-greiningu tónlistarmannsins voru tekin út.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×