Sport

Tár­vot Serena þurfti að hætta leik á Wimbledon vegna meiðsla

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Serena Williams rann á sleipum vellinum og þurfti að draga sig úr keppni.
Serena Williams rann á sleipum vellinum og þurfti að draga sig úr keppni. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA

Serena Williams nær ekki sínum 24. risatitli á Wimbledon í ár en hún þurfti að draga sig úr keppni vegna meiðsla í sjöundu lotu gegn Aliaksandra Sasnovich frá Hvíta-Rússlandi.

Hin 39 ára gamla Serena er á eftir sínum 24. sigri á risamóti í tennis en með því myndi hún jafna met Margaret Court. Serena var til alls líkleg á Wimbledon en hún meiddist í sjöundu lotu leiksins, staðan þá 3-3.

Hún fór af velli til að fá meðhöndlun en sneri aftur á völlinn. Hún haltraði hins vegar og gat engan veginn haldið áfram að spila. Hún gaf leikinn á endanum og þakkaði áhorfendunum sem höfðu reynt að hvetja hana áfram.

„Að þurfa hætta leik vegna meiðsla á hægri fæti braut í mér hjartað. Ég er þakklát áhorfendunum og teyminu sem gerir Centre Court [á Wimbledon] að svona mögnuðum stað. Að finna fyrir hlýju og stuðning áhorfenda þegar ég labbaði af velli gerði mikið fyrir mig,“ sagði Serena í færslu á Instagram-síðu sinni eftir meiðslin.

Serena rann á sama stað og Adrian Mannarino hafði gert klukkutíma áður er hann þurfti að gefa leik sinn gegn Roger Federer.

Serena hefur ekki enn náð að jafna met Court þrátt fyrir að komast í fjóra úrslitaleiki frá því hún sneri aftur eftir barnsburð – og fékk í kjölfarið blóðtappa – fyrir þremur árum. 

Þessi ótrúlega keppnismanneskja er ekki þekkt fyrir að leggja árar í bát en hún verður fertug síðar á árinu og það er ljóst að tíminn er ekki vinur hennar þegar kemur að því að jafna þetta ótrúlega met.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×