Innlent

Enginn greindist með Covid-19 um helgina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sýnatökuglös eins og notuð eru við skimun vegna kórónuveirunnar.
Sýnatökuglös eins og notuð eru við skimun vegna kórónuveirunnar. Vísir/Vilhelm

Enginn greindist með kórónuveiruna innanlands föstudag, laugardag eða sunnudag. Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á síðunni Covid.is.

Síðan er uppfærð þessi dægrin á mánudögum og fimmtudögum en þess á milli senda almannavarnir fjölmiðlum tilkynningar ef fólk greinist utan sóttkvíar.

Mikið var um veisluhöld á laugardaginn vegna háskólaútskrifta auk afmæla og fleiri hátíðarstunda. Hafi einhverjir smitast um helgina á það ekki eftir að koma fram í tölunum fyrr en eftir einhverja daga.

Í einangrun eru nú 15, en þeir voru 22 á fimmtudag. Í sóttkví er 41, en voru 57 á sunnudag. 1.544 eru í skimunarsóttkví. Einn er nú á sjúkrahúsi vegna Covid-19, sami fjöldi og var í síðustu viku.

Fimm greindust á landamærum í gær, þar sem einn var með virkt smit í fyrri landamæraskimun, einn mældist með mótefni, en niðurstöðu mótefnamælingar er beðið í tilfelli þriggja.

153.725 eru nú fullbólusettir hér á landi, 52,1 prósent íbúa sextán ára og eldri, og er bólusetning hafin hjá 85.089 til viðbótar, eða 28,8 prósent íbúa sextán ára og eldri. Þá hafa 2,2 prósent fengið Covid-19 og/eða eru með mótefni til staðar.

6.630 hafa nú greinst með kórónuveiruna hér á landi frá upphafi faraldursins í febrúar á síðasta ári. Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru þrjátíu látin.

Fréttin verður uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×