Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - ÍA 3-1 | Botnliðið í vandræðum

Árni Konráð Árnason skrifar
ia fylk
vísir/hulda margrét

Jóhannes Karl, þjálfari ÍA, var því tilneyddur til þess að gera breytingar á liði sínu og voru 4 nýir leikmenn í liði Skagamanna í kvöld. Skagamenn spiluðu seinast leik fyrir fjórum dögum, eða þann 16. júní. Það var því við búist að það yrði þreyta í Skagamönnum og var ljóst að Fylkismenn ætluðu að nýta sér það.

Það kom þó á óvart þegar á 4. mínútu leiksins átti Viktor Jónsson lúmska sendingu á Hákon Inga inn fyrir vörn Fylkismanna þar sem að Hákon átti skot í stöng sem að endurkastaðist beint á Gísla Laxdal sem að setti boltann í autt markið, 0-1 fyrir ÍA.

Fylkismenn settu þá í fimmta gír og sóttu linnulaust að marki Skagamanna og uppskáru góð færi. Það var síðan á 23. mínútu þegar að Jordan Brown gefur boltann út í teig Skagamanna þar sem að Helgi Valur setur hann snyrtilega í hornið og jafnar leikinn, 1-1.

Fylkismenn héldu áfram að sækja að marki Skagamanna út fyrri hálfleikinn og áttu mörg góð færi. Mörkin komu þó ekki og endaði fyrri hálfleikur 1-1.

Seinni hálfleikur byrjaði á sömu nótum og sá síðari endaði. Fylkismenn fóru strax í sókn og var ljóst að þeir ætluðu sér að sækja öll stigin þrjú.

Á 54. mínútu dró til tíðanda þegar að fyrirgjöf barst fyrir mark Skagamanna þar sem að Orri Sveinn skallar boltann inn í pakkann, þar tók Ásgeir Eyþórsson við boltanum og gaf hann út í teiginn þar sem að Óskar Borgþórsson setti boltann í net Skagamanna, 2-1 fyrir Fylki.

Um 5 mínútum seinna eða á 59. mínútu leiksins fengu Fylkismenn aukaspyrnu á hættulegum stað, alveg við vítateigslínu. Þeir eru margir, leikmenn Fylkis, sem að eru með góða löpp og gerði Daði Ólafsson sig líklegan til þess að taka spyrnuna. Helgi valur og Dagur Dan stóðu við boltann og var það Helgi sem að potar boltanum og Dagur Dan spyrnir boltanum þéttingsfast beint á Dino í marki Skagamanna en Dino missir boltann í gegnum klofið. 3-1 fyrir Fylkismönnum og var ljóst að þessi var beint af æfingarsvæðinu!

Fagnaðarefni fyrir Fylkismenn að þrír nýir leikmenn opnuðu markareikninginn sinn í dag, sérstaklega þar sem að markahæsti maður liðsins, Djair Parfitt-Williams, hefur verið að glíma við meiðsli.

Fylkismenn héldu áfram að sækja en fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir mörg tækifæri til. Skagamenn virtust þreyttir og virtist þetta vera of auðvelt fyrir Fylkismenn. Það eru hreinar línur á að munurinn á hvíldartíma liðanna milli leikja hafði áhrif í dag. Óheppilegt fyrir Skagamenn sem að sitja enn á botni deildarinnar.

Hvers vegna vann Fylkir?

ÍA skoraði snemma leiks en Fylkismenn létu það ekki á sig fá og sóttu nær allan leikinn. Skagamenn virtust þreyttir og það hefur sennilega haft áhrif á þá að þeir spiluðu erfiðan leik gegn KA fyrir 4 dögum á meðan Fylkir fékk 8 daga hvíld. Fylkir voru einfaldlega mun betri í leiknum og hefðu hæglega getað bætt við mörkum.

Hvað gekk vel?

Fylkismenn náðu að spila mjög vel sín á milli. Þeir virtust fullir sjálfstrausts og voru óhræddir við að taka áhættur. Það er mjög mikilvægt að þegar að markahæsti maður liðsins er að glíma við meiðsli að aðrir leikmenn stígi upp og skili mörkum. Það er það sem að gerðist í dag og voru þeir Helgi Valur, Óskar og Dagur Dan allir að opna markareikninginn.

Hvað gekk illa?

Varnarlína Skagamanna voru alls ekki sannfærandi í dag og áttu Fylkismenn ekki í neinum vandræðum með að komast inn fyrir þá og skapa sér hættuleg færi. Fylkismenn hefðu getað nýtt sum af þessum færum betur og lagað markatöluna sína í leiðinni.

Hvað gerist næst?

Fylkir á erfiðan útileik í vændum gegn toppliði Vals sem verður leikinn á Hlíðarenda þann 27. Júní. Það verður síðan botnslagur á Norðurálsvelli á Skaganum þar sem að ÍA fær Keflavík í heimsókn.

Helgi Valur opnaði markareikninginn í dag

„Mér líður ágætlega, búinn að fá nokkra leiki núna, heila leiki. Þetta er svolítið ný staða. Ég er vanur að vera djúpur á miðjunni, alla vega megnið af ferlinum. Þannig ég þarf að fara að læra að koma inn í teiginn og skora og taka fleiri hlaup. Það alla vega gekk fínt í dag og ég er að komast í gott stand“. Sagði Helgi Valur sem að opnaði markareikninginn sinn í dag.

Helgi, sem að spilaði framarlega á miðjunni hjá Fylki í dag, er fæddur 1981 og er því 40 ára á árinu. Það var þó ekki að sjá á honum og var hann allt í öllu í sóknarleik Fylkismanna þar sem að hann skoraði og lagði upp mark í leiknum. Helgi Valur sannar það hér með að aldur er bara tala og er maður leiksins í dag.

„Það var mjög nice. Ég fékk þarna nokkur tækifæri á undan líka, og búinn að fá nokkur í sumar sem að ég hef ekki náð að klára. Þannig já, ég er mjög sáttur að hafa náð að skora“ sagði Helgi þegar hann var aðspurður um að hafa opnað markareikninginn.

Atli Sveinn: Engir skyldusigrar í þessari deild

„Nei, alls ekki. Við erum ekki með neina skyldusigra í þessari deild, því miður. Ég vildi að það væri þannig en það er það ekki. Við þurfum bara að hafa fyrir öllu okkar“. Sagði Atli þegar að hann var spurður að því hvort að þetta hafi verið skyldusigur gegn botnliðinu. „Ég ber mikla virðingu fyrir Skaganum, við höfum átt í erfiðleikum með Skagamenn undanfarin ár. Mjög þakklátur og auðmjúkur fyrir þennan sigur.“

„Við fengum góðan tíma til að undirbúa okkar leik og við nýttum vikuna vel. Við vorum pirraðir út í sjálfa okkur eftir Blika leikinn og við reyndum að laga fullt, fullt af hlutum eftir þann leik og eitthvað hefur farið inn og það virkaði“ sagði Atli.

Fylkismenn hefðu mögulega átt að fá víti snemma leiks þegar að það virtist sem að nartað hafi verið í hælana á Ragnari Braga inn í teig Skagamanna. Egill Arnar dómari leiksins dæmdi þó ekkert á atvikið. Aðspurður segist Atli hafa talið þetta hafa verið víti en það hafi þó ekki komið að sök.

Jóhannes Karl: Byrjuðum leikinn vel

„Skiptir allt máli náttúrulega, upp á orkustigið að gera. En við töpum leiknum af því að við erum klaufar fyrst og fremst. Við byrjum leikinn vel og skoruðum mark snemma. Það var mjög góð byrjun og gott að koma sér þannig inn í leikinn en eftir markið vorum við allt of passívir og féllum allt of aftarlega. Við ætluðum að reyna að keyra á Fylkismenn snemma í leiknum og halda boltanum betur og það gekk heldur ekki nógu vel. Enn og aftur hleypum við Fylkismönnum inn í leikinn á mjög auðveldan hátt. Við hefðum alveg getað komið í veg fyrir það mark. Svekkjandi eftir að hafa byrjað leikinn vel“. Sagði Jóhannes Karl aðspurður út í mismun hvíldartíma liðanna.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.