Sport

Fagnaði útskriftinni sinni í fullum skrúða á sundlaugabakkanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katie Ledecky er margfaldur meistari og núna líka útskrifuð úr Stanford háskólanum.
Katie Ledecky er margfaldur meistari og núna líka útskrifuð úr Stanford háskólanum. Getty/Sean M. Haffey

Bandaríski Ólympíumeistarinn Katie Ledecky hefur þurft að fórna ýmsu fyrir sundferilinn sinn og þar á meðal sjálfum útskriftardeginum.

Ledecky var á útskrifast úr Stanford háskólanum um helgina en gat ekki verið viðstödd því á sama tíma fór fram úrtökumót fyrir bandaríska Ólympíuliðið en Ólympíuleikarnir fara fram í Tókýó seinna í sumar.

Ledecky er ekki þekkt fyrir að láta sér eða öðrum leiðast og hún fann leið til að fagna útskriftinni ásamt tveimur öðrum sundkonum sem voru í sömu stöðu. Þær eru Brooke Forde og Katie Drabot.

„Við erum kannski að missa af útskriftarhátíðinni í Stanford í dag vegna úrtökumótsins en það kom ekki í veg fyrir að að skemmta okkur aðeins,“ skrifaði Katie Ledecky við myndina af sér.

Ledecky birti mynd af sér á Instagram síðu sinni þar sem hún er í fullum skrúða á sundlaugabakkanum, í útskriftarskikkjunni og með útskriftarhattinn.

Ledecky hefur unnið sex Ólympíuverðlaun á ferlinum, á tveimur Ólympíuleikum, en hún vann ein gullverðlaun í London 2012 og síðan fjögur gull og eitt silfur á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Hún hefur einnig unnið fimmtán gullverðlaun á heimsmeistaramótum sem er met.

Katie er heimsmethafi í 400 metra, 800 metra og 1500 metra skriðsundi. Ledecky getur unnið 800 metra skriðsund á þriðju Ólympíuleikunum í röð í Tókyó en hún er nú 24 ára en var aðeins fimmtán ára á leikunum í London 2012.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.