Fótbolti

„Missum smá fókus og eigum að geta haldið út”

Sverrir Már Smárason skrifar
Gunnhildur með fyrirliðabandið í kvöld.
Gunnhildur með fyrirliðabandið í kvöld. vísir/huldad

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var fyrirliði Íslands þegar kvennalandsliðið sigraði það Írska 3-2 á Laugardalsvelli í kvöld. Hún var að vonum ánægð með sigurinn.

„Við erum náttúrulega ánægðar með sigur, þetta var erfiður leikur með vindinn og svolítið skipt. Mér fannst liðið spila vel og fannst við stjórna leiknum. Við hefðum kannski getað stoppað þær frá því að skora en heilt yfir ánægð með leikinn.”

Gunnhildur Yrsa skoraði annað mark Íslands í leiknum.

„Það er alltaf ánægjulegt að skora en ennþá betra að vinna.”

Leikurinn í kvöld var aðeins sá þriðji undir stjórn nýrra þjálfara og nýjum þjálfurum fylgja alltaf nýjar áherslur.

Gunnhildur sá framför á leik liðsins en að það megi þó enn bæta margt.

„Við vissum að við þyrftum að halda í boltann, spila honum þegar tækifæri gæfist og hlaupa meira á bakvið línu þegar við gætum. Mér fannst við bæta það aðeins en við þurfum að vinna aðeins meira í því. Spiluðum vel á köflum en þetta var erfitt stundum á móti vindi.”

Vindurinn var erfiður á annað markið í kvöld en Gunnhildur vildi þó frekar meina að einbeitingarleysi væri orsök marka írska liðsins.

„Við getum ekki kannski skrifað þetta algjörlega á vindinn, við þurfum bara að halda fókus. Eitt (markið) kemur strax eftir að við komum út eftir hálfleik og svo eitt í blálokin. Við missum smá fókus og eigum að geta haldið út.

Að lokum var Gunnhildur spurð hvernig tilfinningin hafi verið að leiða Íslenska landsliðið út á Laugardalsvöll.

„Það er alltaf heiður og bara æðislegt að fá að vera partur af þessu liði.”


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.