Sport

Anníe Mist í smá mótvindi rétt fyrir undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir ætlar sér stóra hluti um helgina en það væri mikið afrek fyrir hana að tryggja sig inn á heimsleikana í CrossFit tíu mánuðum eftir að hún varð móðir.
Anníe Mist Þórisdóttir ætlar sér stóra hluti um helgina en það væri mikið afrek fyrir hana að tryggja sig inn á heimsleikana í CrossFit tíu mánuðum eftir að hún varð móðir. Instagram/@anniethorisdottir

Anníe Mist Þórisdóttir telur niður í undanúrslitamót sitt fyrir heimsleikana í CrossFit en þangað stefnir hún í fyrsta sinn eftir að hún varð móðir.

Anníe Mist keppir um helgina og þar getur hún tryggt sig inn á sína elleftu heimsleika. Hennar fyrstu heimsleikar voru árið 2009 þegar hún var ekki búin að halda upp á tvítugsafmælið sitt.

Anníe Mist gefur fylgjendum sínum góð ráð í pistli sínum en þar kemur líka fram að íslenska CrossFit goðsögnin sé í smá mótvindi rétt fyrir undanúrslitin.

„Verið ánægð með að vera þið sjálf. Þú ert sá eini sem hefur upplifað þitt líf og því er það undir þér komið að ná sem mestu úr því,“ byrjaði Anníe Mist.

„Suma daga ertu kannski ekki ánægður með sjálfan þig en það er í lagi. Það er bara eðlilegt. Ef þú værir hamingjusamur alla daga þá eru góðar líkur á því að þú sért ekki hreinskilinn við sjálfan þig,“ skrifar Anníe Mist.

„Við lendum öll í smá basli en það er hluti af lífinu og þú verður bara sterkari á því að takast á við þennan mótvind,“ skrifar Anníe Mist.

Það er að heyra á henni og eins sjá á myndinni sem fylgir færslunni að okkar kona er í smá kapphlaupi að í að ná sér alveg góðri fyrir keppni helgarinnar.

„Minn mótvindur núna er að fá líkamann til að jafna sig í tíma fyrir undanúrslitin,“ skrifar Anníe Mist og endar færsluna á því að segja: „Næstum því komin.“ Það má sjá pistilinn hér fyrir neðan.

Það er vonandi að Anníe Mist nái sér alveg hundrað prósent góðri fyrir keppni helgarinnar og það væri gaman að sjá tvær mömmum keppa á heimsleikunum í ár en hin ástralska Kara Saunders hefur þegar tryggt sér sæti á heimsleikunum. Dóttir hennar er hins vegar fimmtán mánuðum eldri en Freyja Mist, dóttir Anníe.

Ef það er einhver sem ræður við það að vinna sig í gegnm mótlæti og mótvind þá er það Anníe Mist. Það hefur hún sýnt svo oft í gegnum tíðina. Það væri líka mikið afrek hjá henni að komast í hóp hraustustu CrossFit kvenna heimsins aðeins tíu mánuðum eftir að hún eignaðist barn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×