Erlent

Samþykkja fyrsta nýja Alzheimers-lyfið í 20 ár

Árni Sæberg skrifar
Vísindamenn á borð við þennan telja sig hafa fundið upp lækningu við Alzheimers.
Vísindamenn á borð við þennan telja sig hafa fundið upp lækningu við Alzheimers. Prapass Pulsub/GETTY

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur samþykkt notkun Alzheimers-lyfsins Aducanumab. Lyfið er það fyrsta sem fær samþykki sem meðferð við Alzheimers í 20 ár.

Lyfinu Aducanumab er ætlað að koma í veg fyrir útfellingu svokallaðs mýlildis í heila, en hún er af mörgum talin orsaka Alzheimers sjúkdóminn. 

Vísindamenn telja útfellingu mýlildis valda óeðlilegum hnúðum í heila þeirra sem þjást af Alzheimers og orsaki þannig skaða á heilasellum og heilabilun. 

Óljósar niðurstöður lyfjatilrauna

Í mars 2019 var öllum tilraunum með lyfið Aducanumab hætt þar sem niðurstöður rannsóknar bentu til þess að lyfið gerði ekkert til að koma í veg fyrir Alzheimers. 

Vísindamenn lyfjaframleiðandans Biogen ákváðu þá að stækka skammtinn sem veittur var í tilrauninni og fór lyfið þá að gefa góða raun. Fyrirtækið segir lyfið hægja verulega á hrörnun heila þeirra sem þjást af Alzheimers.

Hagsmunasamtök fagna leyfisveitingunni

Góðgerðasamtök sem berjast fyrir auknum rannsóknum á Alzheimers og mögulegum lækningum við sjúkdóminum fagna því að loks hafi nýtt lyf verið samþykkt til meðhöndlunar á sjúkdóminum.

Læknar og vísindamenn eru þó óvissir um gagnsemi lyfsins enda hafa lyfjatilraunir ekki skilað afgerandi niðurstöðum um virkni þess.

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna segir haldbærar niðurstöður liggja fyrir sem benda til þess að lyfið komi í veg fyrir útfellingu mýlildis í heilanum og að sæmilega öruggt sé að spá fyrir um jákvæð áhrif þess á Alzheimers-sjúklinga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×